Vissi að þetta myndi enda með auknum meiðslum

LeBron James er verulega ósáttur við forsvarsmenn NBA-deildarinnar.
LeBron James er verulega ósáttur við forsvarsmenn NBA-deildarinnar. AFP

LeBron James, leikmaður LA Lakers í NBA-deildinni í körfuknattleik, hefur gagnrýnt forsvarsmenn deildarinnar harðlega fyrir að hafa byrjað hana allt of snemma, sem sé sé ástæðan fyrir meiðslum fjölda af bestu leikmönnum deildarinnar að undanförnu.

Síðasti leikur síðasta tímabils, þegar Lakers tryggðu sér 4:2-sigur í úrslitaeinvígi gegn Miami Heat, fór fram hinn 6. október á síðasta tímabili.

Núverandi tímabil hófst svo síðustu jól og segist James hafa varað við því að það væri allt of stutt á milli tímabilanna, sem myndi leiða til aukinna meiðsla.

„Það vildi enginn hlusta á mig varðandi byrjunina á tímabilinu. Ég vissi nákvæmlega hvað myndi gerast. Ég vildi einungis vernda heilsu leikmanna, sem er þegar allt kemur til alls varan sem deildin býður upp og stuðlar að framgangi leiksins.

Þessi meiðsli eru ekki bara „hluti af leiknum“. Þetta er hreinn og beinn skortur á allsherjarhvíld milli tímabila áður en við byrjum aftur. Átta, hugsanlega níu leikmenn úr stjörnuliðinu hafa misst af leikjum í úrslitakeppninni, sem er það mesta í sögu deildarinnar,“ skrifaði James mjög ósáttur á twitteraðgangi sínum í gær.

Á meðal þeirra leikmanna sem hafa misst af leikjum í úrslitakeppninni eru James Harden og Kyrie Irving hjá Brooklyn Nets, Kawhi Leonard hjá LA Clippers, Joel Embiid hjá Philadelphia 76ers og Donovan Mitchell hjá Utah Jazz.

„Þetta á að vera besti tími ársins fyrir deildina og aðdáendur hennar en það vantar helling af uppáhaldsleikmönnum okkar. Þetta er klikkað. Ef það er einhver sem veit hvernig líkaminn virkar allan ársins hring er það ég.

Ég hef einungis heilsu allra leikmanna okkar í huga og mér finnst ömurlegt að sjá svona mikil meiðsli á þessum árstíma. Ég vorkenni ykkur aðdáendur og vildi óska þess að þið fengjuð tækifæri til að sjá alla uppáhaldsleikmenn ykkar núna,“ skrifaði James einnig á twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert