Tvö skallamörk hjá Hansen í sigri Víkings

Nikolaj Hansen skallar að marki Stjörnunnar í leiknum í kvöld.
Nikolaj Hansen skallar að marki Stjörnunnar í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Víkingur vann Stjörnuna 3:2 í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Víkingsvelli í Fossvogi í kvöld. Víkingur er í öðru sæti deildarinnar með 29 stig og Stjarnan í tíunda sæti með 13 stig.

Víkingar fengu kjaftshögg snemma leiks þegar Daninn Oliver Haurits skoraði fyrir Stjörnuna strax á 8. mínútu með hnitmiðuðu skoti rétt innan við miðlínu. Magnað mark enda ekki á hverjum degi sem tilþrif sem þessi sjást. Haurits fékk boltann á eigin vallarhelmingi og leit upp. Sá að Þórður markvörður var framarlega og Haurits lét vaða áður en hann kom að miðlínunni. Skotið var nákvæmt og sigldi yfir Þórð og í netið. 

Víkingur snéri taflinu við með tveimur skallamörkum frá Nikolaj Hansen. Hið fyrra kom á 37. mínútu eftir fyrirgjöf frá Kristalli Mána frá hægra. Víkingur fékk aukaspyrnu fyrir utan vítateigshornið hægra megin frá Víkingi séð. Kristall sendi inn á markteiginn og Hansen henti sér fram og skallaði í vinstra hornið.

Hið síðara kom strax í upphafi síðari hálfleiks eftir fyrirgjöf Atla frá vinstri. Hansen var á fjærstönginni og náði skalla á markið af stuttu færi. Boltinn fór beint á Harald en hann náði ekki að bregðast við og af honum fór boltinn í hliðarnetið. 

Varamaðurinn Helgi Guðjónsson bætti þriðja markinu við á 70. mínútu eftir fallega sendingu frá Atla sem sendi bogabolta inn fyrir Daníel og beint á Helga. Arnar Darri keyrði út úr markinu en úthlaupið var ekki vel tímasett og Helgi setti boltann framhjá honum við vítateigslínuna og í netið af yfirvegun. 

Varamaðurinn Emil Atlason minnkaði muninn fyrir Stjörnuna í uppbótartíma eftir fyrirgjöf frá Óla Vali frá hægri, öðrum varamanni. Fyrirgjöfin kom inn á markteig og þar renndi Emil sér í boltann og tókst að stýra honum í netið með vinstri fæti. 

Lið sem hefur þroskast

Lið Víkings virðist hafa þroskast nokkuð frá síðasta tímabili. Þá urðu menn stundum pirraðir og óþolinmóðir þegar hlutirnir gengu ekki upp. Í kvöld fékk liðið hálfgert kjaftshögg þegar Haurits skoraði glæsilegt mark strax á 8. mínútu. Víkingar voru ef til vill slegnir út af laginu um stundarsakir en fóru ekki á taugum.  Þegar Víkingar höfðu jafnað sig þá náðu þeir fínum tökum á leiknum. 

Í fyrra voru vangaveltur um hverjir fleiri gætu skorað mörkin fyrir utan Óttar Magnús Karlsson. Í sumar hefur Daninn Nikolaj Hansen sprungið út með látum. Á sínu sjötta tímabili á Íslandi er hann farinn að raða inn mörkum. Hefur skorað þrettán mörk í deildinni í sumar en fyrir tímabilið hafði hann skorað samtals fimmtán mörk á Íslandsmótinu. Þar fyrir utan er Helgi einnig í formi fyrir framan markið. Víkingsliðið getur með sama áframhaldi barist á toppnum þótt væntanlega verði ekki auðvelt að slá Valsmönnum við. 

Stjarnan er rétt fyrir ofan fallsætin og ekki er útlit fyrir annað en að Garðbæingar muni þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum í deildinni. Ekki var það eitthvað sem maður sá fyrir áður en tímabilið hófst en úr því sem komið er finnst manni ekki líklegt að Stjarnan nái að komast í stuð í sumar. Ekki er þó þar með sagt að liðið muni falla. 

Í kvöld átti liðið fremur erfitt uppdráttar eftir að Víkingur jafnaði. Meiri kraftur var í leikmönnum Víkings eins og til dæmis mátti sjá þegar Kristall tók sína spretti á vallarhelmingi Stjörnunnar. En það komu þó kaflar þar sem leikmenn Stjörnunnar voru áræðnir og þá sköpuðu þeir ágæt færi. Þeir gáfust ekki upp þegar Víkingur náði 3:1 forystu og minnkuðu muninn þegar tveir varamenn bjuggu til gott mark. Það býr ýmislegt í leikmönnum Stjörnunnar þótt liðið hafi ekki fengið stig í kvöld en spurning hvernig best sé að ná því fram.

Haraldur Björnsson markvörður Stjörnunnar var borinn af leikvelli í kvöld á 53. mínútu eftir samstuð við Hansen. Ekki var auðvelt að sjá úr blaðamannastúkunni hvar Haraldur fékk höggið þegar Hansen lenti á honum í teignum en mögulega var um höfuðhögg að ræða. Haraldur var fluttur með sjúkrabíl frá Víkingsvelli en ekki hafa borist fréttir af því hvernig honum heilsast.  

Víkingur R. 3:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Sjö mínútum er bætt við. Hugað var að Haraldi í nokkrar mínútur snemma í seinni hálfleik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert