Vélin mest verið suður í höfum

TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur að viðbragðsgeta Gæslunnar …
TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur að viðbragðsgeta Gæslunnar sé ekki skert með því að hætta rekstri vélarinnar. Samsett mynd

Dómsmálaráðherra telur ekki að stöðvun á rekstri eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, muni setja strik í reikninginn hvað varðar viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar í leit og björgun. 

Hann segir að á undanförnum árum hafi meginverkefni vélarinnar snúið að landamæraeftirliti í Evrópu.

„Vélin hefur ekki gegnt veigamiklu hlutverki þegar kemur að leit og björgun hér við Íslandsstrendur. Henni var flogið eitthvað vel innan við hundrað flugstundir á síðasta ári, samkvæmt mínum upplýsingum,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar.
TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Þungur kostnaður vegna endurnýjunar á búnaði vélarinnar 

Hann segir að fyrirliggjandi sé mikill kostnaður við endurnýjun á búnaði vélarinnar.

„Þetta er stór vél sem er nokkuð dýr í resktri. Svo við tökum þá ákvörðun að leggja að leggja áherslu á viðbragð við leit og björgun hjá Landhelgisgæslunni og ákveðum að selja þessa vél við þessar aðstæður,“ segir Jón. 

Til greina kemur að samnýta flugvél Isavia, sem einnig er í eigu ríkisins og lítið notuð. Isavia hefur tekið vel í erindi dómsmálaráðuneytisins vegna þessa, að sögn Jóns.

„Við höfum hafið samtal um mögulega samnýtingu á þessum vélum og mögulega sameiginlegan rekstur í framtíðinni. Það er í jákvæðu samtali á milli okkar og þeirra,“ segir Jón og bætir við að stjórnvöldum hafi þótt þetta skynsamlegasta ráðstöfunin á þessu stigi, eftir að hafa átt samtal við Landhelgisgæsluna.

Spurður hvort hann taki undir með Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, sem telur ráðstöfunina fela í sér afturför í viðbragðs- og eftirlitsgetu þjóðarinnar segir hann:

„Við verðum að horfa til þess að þessi vél hefur að langstærstum hluta verið í verkefnum suður í höfum. Og ekki verið til taks hér við Ísland svo mánuðum skiptir. Vélin hefur ekki verið að gegna hér einhverju veigamiklu hlutverki þegar kemur að leit og björgun og eftirlit.“

Hafi aðgang að öðrum vélum

Þá hafi Landhelgisgæslan aðgang að öðrum vélum, komi til þess að sinna þurfi bráðum verkefnum hvað varðar leit og eftirlit. „En við þurfum síðan að leita lausna í framtíðinni og út á það gengur samtal okkar við Isavia.“

Fjár­veit­ing­ar til Land­helg­is­gæsl­unn­ar á fjár­lög­um þessa árs voru aukn­ar um 600 millj­ón­ir króna, sem reyndist ekki nóg vegna rekstrarhalla síðasta árs, að því er fram kom í tilkynningu Landhelgisgæslunnar í dag.

Eldsneytiskostnaður mikill hjá skipum, vélum og þyrlum

Spurður hvort þetta hafi verið nauðsynleg aðgerð segir Jón:

„Við erum með fjárlagaramma. Við fengum aukningu á síðasta ári. En auðvitað hefur kostnaður áhrif. Og þá sérstaklega mikill eldsneytiskostnaður við að halda úti þessum stóru skipum sem Gæslan hefur yfir að ráða og þyrlukostinum. Og við þurftum að grípa til ráðstafana gagnvart rekstrinum,“ segir Jón og heldur áfram:

„En burtséð frá því, út frá öllum öðrum forsendum, þá held ég að það sé skynsamlegt á þessum tímamótum að huga að uppstokkun þessum þætti rekstursins, einmitt með það í huga að skoða frekari samnýtingu á flugvélum í eigum ríkisins og sinna þeim verkefnum sem þá liggja fyrir.“ Vélin sé dýr í rekstri og sé skynsamlegt að stokka upp og skoða aðrar lausnir til framtíðar.

Vél Isavia, sem gæti komið til greina að samnýta, er fyrst og fremst notuð til þess að stilla aðflugstæki fyrir flugvelli að sögn Jóns. Slík vél hafi oft verið notuð til aðstoðar við björgunar- og leitarstörf á fyrri árum. 

„Ég held það sé gott að skoða sameiginlega lausn á þessu. Það samstarf er hafið óformlega við Isavia og vel tekið í það erindi okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert