Sprittaði sig áður en hann framdi vopnað rán

Chido er mexíkóskur skyndibitastaður í Vesturbæ Reykjavíkur.
Chido er mexíkóskur skyndibitastaður í Vesturbæ Reykjavíkur. Ljósmynd/Facebook

Maður sem framdi vopnað rán á skyndibitastaðnum Chido í Vesturbæ fyrr í dag hafði greinilega skilvíslega meðtekið boðskap almannavarna undanfarið um einstaklingsbundnar sóttvarnir, en hann er sagður hafa sprittað sig í bak og fyrir áður en hann lét til skarar skríða.

„Eins og einhver ykkar hafa kannski heyrt og lesið þá fengum við heldur óskemmtilega heimsókn í dag þar sem starfsmanni okkar var hótað með hníf fyrir aðgang að peningakassanum.

Merkilegt nokk, gerandinn passaði að spritta sig í bak og fyrir áður en hann lét til skarar skríða,“ segir í færslu á Facebook-skyndibitastaðarins.

Lét sig hverfa

Starfsmenn staðarins sluppu ómeiddir. Maðurinn yfirgaf vettvang eftir ránið og lögregla leitaði hans í kjölfarið. Ekki liggur fyrir hvort hann sé fundinn.

„Nú er allt orðið með kyrrum kjörum á Ægisíðunni og við verðum með opið í kvöld eins og vanalega. Við höfum ekki látið ástandið í samfélaginu stoppa okkur og við höldum ótrauð áfram þrátt fyrir þessa uppákomu,“ segir í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert