„Það væri ólíkt Íslendingum að gefast upp og vola“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson birti mynd á facebooksíðu sinni í gær samhliða baráttukveðju til þjóðarinnar. Að sögn forsetans væri það ólíkt íslenskri þjóð að gefast upp og vola eftir að hafa sýnt fram á hvað í henni býr í þessu veirufári hingað til.

Þjóðin megi vera vonsvikin

Guðni segir aðgerðirnar sem taka gildi á miðnætti mildar og heldur í þá trú að fólk muni áfram finna lausnir og þreyja þorrann. Það séu þó vonbrigði að faraldurinn sé kominn á þann stað að setja þurfi vissar hömlur á daglegt líf landsmanna. 

Á myndinni sem fylgir færslunni má sjá Bessastaði, aðsetur forsetans, ásamt einnota grímu sem hefur villst á túnið fyrir framan. Ríkisstjórnin tilkynnti í gærkvöldi að grímuskylda yrði innanhúss þar sem ekki væri hægt að tryggja eins metra nándarmörk frá og með miðnætti í kvöld.

Forsetinn endar kveðjuna á hughreystandi skilaboðum: „Einatt hef ég verið stoltur af þjóð minni í þessum faraldri og ég þykist vita að við ætlum áfram að snúa bökum saman í sameiginlegri baráttu okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert