Martin spenntur fyrir Valencia frá 12 ára aldri

Martin Hermannsson í EuroLeague
Martin Hermannsson í EuroLeague

Martin Hermannsson hefur verið spenntur fyrir því að spila með spænska félaginu Valencia frá tólf ára aldri. Nú hefur sá draumur ræst því í gærmorgun tilkynnti Valencia formlega að samið hefði verið við Martin til næstu tveggja ára, auk þess sem þriðja árið er í samningnum líka en Martin hefur möguleika á að fara annað að tveimur árum liðnum. Um svokallaðan 2+1-samning er því að ræða.

Martin sagði við Morgunblaðið í gær að áhugi sinn fyrir Valencia hefði vaknað þegar Jón Arnór Stefánsson lék með liðinu tímabilið 2006-2007.

„Ég fór þá með fjölskyldunni í frí til Alicante og við fórum og hittum Jón Arnór í Valencia. Þetta hefur verið mjög spennandi félag í mínum augum alla tíð síðan og ég er afar spenntur fyrir því að leika með því næstu árin.

Það er ekki bara körfuboltinn sem heillar í Valencia, heldur líka lífið og borgin, góða veðrið og ströndin. Þetta verður allt annað en í Frakklandi og Þýskalandi að þessu leyti, og svo er deildin á Spáni sú sterkasta í Evrópu,“ sagði Martin 

Hann þekkir líka vel til Valencia, liðsins og heimavallarins, eftir að hafa spilað þar þrisvar með Alba Berlín undanfarin tvö ár. Liðin léku til úrslita í EuroCup vorið 2019 þar sem Valencia vann einvígið 2:1 og liðin unnu sína heimaleiki. Í Euroleague í vetur vann svo Valencia fjórtán stiga sigur á Alba á heimavelli en leikurinn í Þýskalandi fór ekki fram vegna kórónuveirunnar.

„Þeir höfðu yfirhöndina í öllum leikjunum á sínum heimavelli á móti okkur, enda er það gríðarlega sterkt vígi hjá þeim,“ sagði Martin og veit því vel að hverju hann gengur en honum er ætlað stórt hlutverk í liði Valencia næstu árin.

„Þeir lögðu mikla áherslu á að fá mig en í vikunni var útlit fyrir að ég væri á leið til Fenerbahce í Tyrklandi. Þá komu upp atriði í samningnum sem ég var ekki ánægður með og um leið kom Valencia fram með mun betra tilboð og yfirbauð allt sem aðrir höfðu boðið. Ég talaði við þjálfarann og fékk sama fiðring og ég fékk þegar ég ákvað að semja við Alba Berlín fyrir tveimur árum.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert