Atli bjargaði stigi fyrir KR á ögurstundu

Emil Atlason og Theodór Elmar Bjarnason í skallabaráttu í leiknum …
Emil Atlason og Theodór Elmar Bjarnason í skallabaráttu í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Stjarnan og KR skildu jöfn, 1:1, í æsispennandi leik í 10. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld. KR þjarmaði að heimamönnum nánast allan leikinn og jafnaði loks metin í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

KR-ingar hófu leikinn af krafti og pressuðu Stjörnumenn stíft, héldu boltanum vel og fengu tvö ágætis skotfæri.

Það voru hins vegar heimamenn í Stjörnunni sem tóku forystuna á 14. mínútu með sínu fyrsta skoti í leiknum og eina færi sínu í fyrri hálfleik.

Ísak Andri Sigurgeirsson átti þá laglega sendingu inn fyrir vörn KR, Daníel Finns Matthíasson var skyndilega sloppinn einn í gegn, lék með boltann inn í vítateig, tók skotið í nærhornið sem Beitir Ólafsson í marki KR varði upp í þaknetið.

Um var að ræða fyrsta mark Daníels fyrir Stjörnuna eftir að hann kom frá uppeldisfélaginu Leikni úr Reykjavík þegar yfirstandandi tímabil var nýhafið.

KR var áfram við stjórn en gekk erfiðlega að skapa sér opin færi. Næst komst Færeyingurinn Hallur Hansson því að jafna metin á 39. mínútu þegar hann reyndi að stýra laglegri fyrirgjöf varamannsins Kristins Jónssonar í netið en skotið hans á lofti af markteig fór framhjá markinu.

Í baráttu Halls við Sindra Þór Ingimarsson, miðvörð Stjörnunnar, meiddist sá síðarnefndi og virtist sárþjáður.

Var hann borinn af velli á börum og gat ekki með nokkru móti stigið í hægri fótinn. Fóturinn var vafinn um ökklann og Sindri Þór auk þess íklæddur einhvers konar spelku þegar liðin gengu til búningsherbergja í leikhléi, en þá var staðan 1:0, Stjörnunni í vil.

KR hóf síðari hálfleikinn af enn meiri krafti en þann fyrr og fékk sitt besta færi strax í upphafi hans.

Þá átti Atli Sigurjónsson háa sendingu á Ægi Jarl Jónasson, hann skallaði boltann hnitmiðað í hlaupalínu Pálma Rafns Pálmasonar sem skaut með vinstri fæti af stuttu færi, Haraldur Björnsson í marki Stjörnunnar varði skotið vel, hélt ekki boltanum en náði að handsama hann í annarri tilraun.

Áfram héldu KR-ingar að þjarma að Stjörnumönnum en Haraldur í markinu ásamt Birni Berg Bryde og Daníel Laxdal í miðvarðarstöðunum björguðu þegar þess þurfti.

Á 69. mínútu komst Eggert Aron Guðmundsson nálægt því að tvöfalda forystu Stjörnunnar með fyrsta færi liðsins í síðari hálfleik.

Varamaðurinn Adolf Daði Birgisson fann þá Emil Atlason í góðu hlaupi, hann lagði boltann út á Eggert Aron sem fékk opið skotfæri rétt innan vítateigs en skotið beint á Beiti.

Í næstu sókn fékk KR vítaspyrnu. Haraldur blakaði þá fyrirgjöf Kennie Choparts upp í höndina á Birni Berg og vítaspyrna dæmd.

Á vítapunktinn steig Theodór Elmar Bjarnason en hann þrumaði boltanum yfir markið.

Eftir vítaspyrnuklúðrið gerði varamaðurinn Stefan Alexander Ljubicic sig þrívegis líklegan til að jafna metin fyrir KR en Haraldur varði í tvígang frá honum og í eitt skiptið skallaði Stefan Alexander framhjá markinu.

Stjarnan virtist vera að sigla sigrinum í höfn en á fyrstu mínútu uppbótartíma kom loks jöfnunarmark KR-inga.

Theodór Elmar fór þá vel með boltann á vinstri kantinum, lék með hann inn í vítateig, náði góðri fyrirgjöf á Atla sem skallaði boltann snyrtilega niður í nærhornið.

Bæði lið freistuðu þess að knýja fram sigurmark það sem eftir lifði uppbótartímans en allt kom fyrir ekki og sættust liðin að lokum á jafnan hlut.

Jafnteflið þýðir að Stjarnan fer upp í annað sætið þar sem liðið er með 19 stig líkt og Víkingur úr Reykjavík en betri markatölu.

KR heldur kyrru fyrir í sjötta þar sem liðið er nú með 16 stig.

Stjarnan 1:1 KR opna loka
90. mín. Finnur Tómas Pálmason (KR) á skot sem er varið Þrumuskot fyrir utan teig, fer í varnarmann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert