Um 60.000 hlauparar tóku þátt í hlaupinu, þar sem farið er frá Newcastle til South Shields í norðausturhluta Englands.
Wealleans lést þegar skammt var eftir af hálfu maraþoni en hann var aðeins 29 ára gamall.
Hann hugðist safna peningum fyrir góðgerðasamtökin Mind, sem stuðla að bættri andlegri heilsu fólks. Þannig vildi hann einnig minnast systur sinnar Carly og náins fjölskylduvinar.
„Ef að peningarnir sem ég safna geta hjálpað þó ekki væri nema einni manneskju sem er að ganga í gegnum erfiða tíma, og komið í veg fyrir að hún svipti sig lífi, þá verð ég glaður,“ skrifaði Wealleans á söfnunarsíðuna vegna hlaupsins.
Dánarorsök Wealleans er enn ókunn. Talskona Great North hlaupsins segir að hugur og samúð allra sé með þeim sem elskuðu og þekktu Wealleans. „Við höldum áfram að styðja við fjölskyldu Sams á þessum ótrúlega erfiðu tímum.“
Markmið Wealleans var að safna 350 pundum en nú hefur safnast margfalt hærri upphæð, til styrktar Mind. Í gærmorgun var upphæðin komin yfir 20.000 pund, eða 3,6 milljónir króna.
„Við munum ætíð standa í þakkarskuld við Sam fyrir hans framlag,“ sagði Sarah Hughes, framkvæmdastjóri Mind.
Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.