Markmannslausir í sextán liða úrslitum

Lið Kómoroseyja hefur komið gríðarlega á óvart á Afríkumótinu.
Lið Kómoroseyja hefur komið gríðarlega á óvart á Afríkumótinu. AFP

Knattspyrnulandslið Kómoroseyja sem komst afar óvænt í sextán liða úrslit Afríkumótsins í knattspyrnu sem nú stendur yfir í Kamerún þarf að vera með útspilara í markinu í kvöld þegar það mætir gestgjöfunum.

Tveir markvarða Kómoroseyja eru í einangrun með kórónuveiruna og sá þriðji er meiddur en samkvæmt reglum mótsins verður lið að spila ef það hefur ellefu tiltæka leikmenn, og þá skiptir ekki máli hvort það sé með markvörð í hópnum eða ekki. Chaker Alhadhur sem vanalega leikur stöðu vinstri bakvarðar verður í markinu í kvöld en hann er leikmaður franska B-deildarliðsins Ajaccio.

Framganga Kómoroseyja er mikið ævintýri en liðið vann óvæntan sigur á Gana í riðlakeppninni, 3:2, og komst með því í sextán liða úrslit. Eyþjóðin er í 132. sæti á heimslista FIFA.

Gambía komst í dag í átta liða úrslit með því að sigra Gíneu 1:0. Áður höfðu Burkina Faso og Túnis tryggt sér sæti þar  með sigrum á Gabon og Nígeríu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert