Elvar á leið í úrslitakeppnina

Elvar Már Friðriksson hefur verið í stóru hlutverki hjá Siauliai …
Elvar Már Friðriksson hefur verið í stóru hlutverki hjá Siauliai á tímabilinu. Ljósmynd/LKL

Elvar Már Friðriksson og samherjar hans í Siauliai höfnuðu í sjöunda sæti litháísku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik eftir sigur á Nevezis á útivelli í dag, 88:87, og eru á leið í úrslitakeppnina um meistaratitilinn.

Elvar skoraði 13 stig í dag, tók fimm fráköst og átti fimm stoðsendingar, en hann spilaði óvenju lítið eða í tæpar 20 mínútur.

Siauliai sat á botni tíu liða deildarinnar stóran hluta tímabilsins en hefur verið á mikilli siglingu undanfarnar vikur og endaði með þrettán sigra í 36 leikjum, aðeins þremur sigrum meira en botnlið Nevezis sem féll úr deildinni með úrslitunum í dag.

Í úrslitakeppninni mætir Siauliai liði Rytas sem hafnaði í öðru sæti deildarinnar með 27 sigurleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert