Hlaupið líklega náð hámarki sínu

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/Ragnar Axelsson

Töluverðar líkur eru á því að hlaupið í Grímsvötnum hafi náð hámarki sínum en hlaupóróinn á svæðinu fer minnkandi.

Rennsli í Gígjukvísl mældist í morgun 2.800 rúmmetrar en það er um 28 sinnum meira en rennsli árinnar miðað við venjulegt árferði, að sögn Huldu Rósar Helgadóttur náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

Hún segir enn fremur að verulega hafi hægt á sigi íshellunnar en hún hefur sigið um rétt tæpa 75 metra síðan hlaupið hófst. 

Allt eru þetta vísbendingar um að Grímsvötn hafi tæmt sig af hlaupvatni að mestu. Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporði Skeiðarárjökuls og út í Gígjukvísl. Því má vera að hlaupið í farvegi Gígjukvíslar hafi þegar náð hámarki.

Hulda segir þó erfitt að segja nákvæmlega til um hvort hlaupið hafi náð hámarki sínu án frekari mælinga. Óvíst er hvort hægt verði að mæla rennslið á ný í kvöld vegna veðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert