Fyrsta tap Bandaríkjanna í 17 ár

Evan Fournier og Draymond Green eigast við í dag.
Evan Fournier og Draymond Green eigast við í dag. AFP

Stjörnurnar í bandaríska körfuboltalandsliði karla töpuðu í dag fyrsta leik sínum á Ólympíuleikunum í Tókýó er liðið mætti Frakklandi. Lokatölur eftir æsispennandi leik urðu 83:76, Frakklandi í vil.

Bandaríska liðið var yfir framan af og var staðan í hálfleik 45:37. Frakkar neituðu hins vegar að gefast upp og með góðum þriðja leikhluta voru Frakkar með 62:56 forskot fyrir lokaleikhlutann.

Bandaríkjamenn komust fljótt aftur yfir í fjórða leikhlutanum og var staðan 74:67 þegar skammt var eftir. Þá fór allt í baklás hjá þeim bandarísku og Frakkarnir skoruðu 16 af síðustu 18 stigunum og unnu afar sætan sigur.

Evan Fournier átti stórleik fyrir Frakkland og skoraði 28 stig og Rudy Gobert gerði 14 stig og tók 9 fráköst. Jrue Holiday skoraði 18 stig fyrir Bandaríkin og Bam Adebayo bætti við 12 stigum og 10 fráköstum. 

Tapið var það fyrsta hjá Bandaríkjunum á Ólympíuleikum síðan liðið tapaði þremur leikjum á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004. 

Aðrir leikir dagsins: 
Íran - Tékkland 78:84
Þýskaland - Ítalía 82:92
Ástralía - Nígería 84:67

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert