Fagnar fjölda rauðra daga í maí

Jón Gnarr forsetaframbjóðandi.
Jón Gnarr forsetaframbjóðandi. mbl.is/Arnþór

„Það er ekki það sem maður vill sjá, það er rosa leiðinlegt að hrynja og dala. Það er ekki gaman,“ segir Jón Gnarr forsetaframbjóðandi um niðurstöðu nýjustu skoðunarkönnunar Prósents fyrir Morgunblaðið þar sem fylgi hans mælist 14,7% en var 18% í liðinni viku. 

Hann kveðst þrátt fyrir það eiga mikla von á því að niðurstaðan geti orðið önnur í næstu viku þegar skoðanakönnunin endurspeglar skoðanir fólks eftir kappræður Ríkissjónvarpsins á föstudag, en könnunin var gerð dagana 30. apríl til 5. maí. 

„Mér hefur nú sýnist þetta fylgi allt vera á svolítið mikilli hreyfingu, en auðvitað hefði ég viljað standa í stað eða bæta einhverju við mig. Það er bara eins og það er, ég sætti mig alveg við það.“

„Ég er ekkert að missa móðinn“

Jón Gnarr undirstrikar það sem áður hefur komið fram að ólíkt öðrum þá sé hann í vinnu og hafi því ekki geta sinnt kjósendum af sama krafti og aðrir frambjóðendur. Jón fagnar þó fjölda rauðra daga í maí og hyggst nýta þá í að ferðast um landið og ræða við kjósendur. 

„Ég er í tökum á virkum dögum og hef verið bundinn í leikhúsinu um helgar, en sem betur fer er svolítið af rauðum dögum í maí og þá hef ég tækifæri til að taka skipulagða yfirferð um landið og heimsækja fólk og horfa framan í það,“ segir hann og bætir við: 

„Þetta er löng kosningabarátta, hún er búin að taka langan tíma og það er enn þá mjög langt eftir af henni. Þannig að ég er ekkert að missa móðinn eða neitt þannig. Það er enn þá fullur hugur í mér og mér finnst mjög gott að geta boðið upp á mig í þessum kosningum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert