Fótbolti

Ron­aldo: Deildin í Sádi-Arabíu gæti orðið ein af þeim fimm bestu í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar hér marki með Al-Nassr.
Cristiano Ronaldo fagnar hér marki með Al-Nassr. Getty/Mohammed Saad

Cristiano Ronaldo hefur mikla trú á uppgangi deildarinnar í Sádi-Arabíu á næstu árum en hann gekk til liðs við Al Nassr í janúar.

Ronaldo fær í kringum tvö hundruð milljónir evra í sinn hlut fyrir samninginn eða meira en þrjátíu milljarða íslenskra króna.

Ekki fylgir sögunni hvort að hluti af skyldum hans sé að tala deildina upp. Ronaldo hefur í það minnsta mjög góðan samanburð því hann hefur spilað í mörgum af bestu deildum heims en í Englandi, á Spáni og á Ítalíu.

Hinn 38 ára gamli Portúgali segir að deildin hafi þegar orðið betri þann tíma sem hann hefur spilað þar.

„Við erum mun betri og deildin í Sádi-Arabíu er að verða betri. Hún verður enn betri á næsta ári,“ sagði Cristiano Ronaldo í viðtali við sádi-arabísku sjónvarpsstöðina SSC.

„Skref fyrir skref tel ég að þessi deild verði á endanum ein af þeim fimm bestu í heimi en þeir þurfa bara tíma,“ sagði Ronaldo. Hann gefur Sádunum fimm, sex eða sjö ár í að ná því markmiði.

„Ég trúi því að þetta land bjóði upp á mikla möguleika, hér er æðislegt fólk og deildin verður frábær,“ sagði Ronaldo. Það er mikill metnaður hjá Sádi-Aröbunum enda vill Al Hilal, keppinautur Al Nassr, semja við Lionel Messi.

Ronaldo skoraði glæsilegt mark í gærkvöldi í 3-2 endurkomusigri á Al Shabab og á því enn smá möguleika á því að vinna titilinn. Al-Ittihad hefði orðið meistari ef Ronaldo og félagar hefðu ekki klárað þennan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×