Curry og Thompson réðu ekki við Grikkjann

Giannis Antetokounmpo fagnar eftir að hafa skorað þriggja stiga körfu …
Giannis Antetokounmpo fagnar eftir að hafa skorað þriggja stiga körfu í leiknum gegn Golden State í nótt. AFP

Meistararnir í Milwaukee Bucks unnu í nótt sannfærandi sigur á hinu öfluga liði Golden State Warriors, 118:99, í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Giannis Antetokounmpo var óstövandi í liði Milwaukee en hann skoraði 30 stig, tók 12 fráköst og átti 11 stoðsendingar. Við það réðu Stephen Curry og Klay Thompson engan veginn en Curry skoraði 12 stig í leiknum og Thompson 11 fyrir Golden State. Giannis varð fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA til að ná tvívegis þrefaldri tvennu með 30 stigum án þess að spila í 30 mínútur í leiknum. Milwaukee er í fjórða sæti Austurdeildar en Golden State í öðru sæti Vesturdeildar.

Oklahoma City Thunder vann óvæntan stórsigur á stjörnuliði Brooklyn Nets á útivelli, 130:109. Shai Gilgeous-Alexander skoraði 33 stig og tók 10 fráköst fyrir Oklahoma City. James Harden skoraði 26 stig fyrir Brooklyn. Oklahoma er næstneðst í Vesturdeild en Brooklyn í þriðja sæti Austurdeildar.

Memphis Grizzlies hélt sigurgöngunni áfram og vann Minnesota Timberwolves 116:108. Ellefti sigurleikurinn í röð og Desmond Bane var atkvæðamestur með 21 stig. Memphis sækir nú að Golden State í þriðja sæti Vesturdeildarinnar.

Leikmenn Denver Nuggets voru í miklum ham og skoruðu 140 stig í 32 stiga stórsigri á Portland Trail Blazers. Fremstir í flokki voru Will Barton með 21 stig og Nikola Jokic með 20.

Úrslitin í nótt:

Milwaukee - Golden State 118:99
Memphis - Minnesota 116:108
New Orleans - LA Clippers 113:89
Brooklyn - Oklahoma City 109:130
Denver - Portland 140:108

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert