Ók niður konu og hunda hennar í lyfjavímu

Olivia Riley var úti að ganga með dýrin sín í …
Olivia Riley var úti að ganga með dýrin sín í Chelsea þegar ökumaður í vímu ók hana og þrjá golden retriever-hunda hennar niður í maí í fyrra. Ekkert þeirra lifði. Ljósmynd/Lögreglan í London

Tæplega þrítugur Breti játaði í dag á sig þann hrottalega verknað, fyrir dómi í London, að hafa ekið yfir og myrt Oliviu Riley og þrjá hunda hennar af golden retriever-kyni, en hann ók konuna og hunda hennar niður á Audi TT-bifreið sinni í Chelsea í maí í fyrravor.

Leiddi rannsókn lögreglu í ljós að sakborningurinn, Laszlo Dancs, hefði ekið á allt að þreföldum leyfilegum hámarkshraða og verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna er atvikið átti sér stað. Játaði hann brotið undanbragðalaust en kvaðst saklaus af því að hafa neitað lögreglu um öndunarsýni er hún fór fram á það.

Var fjölskylda hinnar látnu viðstödd réttarhöldin þar sem Philip Katz dómari svipti Dancs ökuréttindum og kvað hann hafa gerst sekan um svívirðilegt brot. Reiknað er með að dómur í málinu falli í lok júlí og féllst dómari á að ákærði gengi laus fram að því jafnframt því sem hann benti á að Dancs mætti eiga von á að dvelja um hríð bak við lás og slá.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert