Handbolti

Stór­feng­legur Janus Daði allt í öllu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Janus Daði í leik með íslenska landsliðinu.
Janus Daði í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Kolstad vann Elverum 34-30 í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni norsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Janus Daði kom að 23 mörkum Kolstad í leiknum.

Mikil spenna ríki fyrir leik kvöldsins enda án efa tvö bestu handboltalið Noregs að mætast og án efa tvö af betri liðum Skandinavíu. Leikurinn var fjörugur og spennustigið hátt.

Aðeins munaði marki á liðunum í hálfleik en í þeim síðari tók Kolstad öll völd og var með sex til sjö marka forystu fram undir lok leiks þegar Elverum náði að minnka muninn niður í fjögur mörk, lokatölur 34-30.

Janus Daði gerði sér lítið fyrir og skoraði 11 mörk ásamt því að gefa 12 stoðsendingar. Þá skoraði Sigvaldi Björn Guðjónsson fjögur mörk fyrir Kolstad, þar af eitt úr vítakasti, á meðan Orri Freyr Þorkelsson skoraði þrjú mörk fyrir Elverum.

Næsti leikur liðsins er á sunnudag en vinna þarf þrjá til að vinna úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×