Fálkinn Ljúfa heldur áfram í sjúkraþjálfun

Ljúfa fannst ófleyg og illa á sig komin við Breiðafjörð …
Ljúfa fannst ófleyg og illa á sig komin við Breiðafjörð á síðasta ári. Ljósmynd/Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn

Fálkinn Ljúfa, sem fannst illa á sig komin og ófleyg við Breiðafjörð á Vesturlandi í lok ágúst á síðasta ári, hefur nú verið í sjúkraþjálfun frá því í nóvember.

Terézia Teriko Hegerova, fálkatemjari frá Slóvakíu, sinnti sjúkraþjálfuninni í fyrstu en nú hefur Dýraþjónustan og Húsdýragarðurinn tekið við að þjálfa Ljúfu í samráði við Náttúrufræðistofnun. Þessu er greint frá á Facebook-síðu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.

Óbrotin en með skaða á olnbogalið 

Ljúfa hefur dvalið í stóra fuglabúrinu við hreindýrasvæðið í Húsdýragarðinum frá því hún fannst. Hún var ekki nema 1.100 grömm þegar hún kom fyrst í garðinn, en fálkar eru að meðaltali um 1.600 grömm að þyngd.

Tekin var ákvörðun um að leyfa Ljúfu að jafna sig og safna holdum áður en næstu skref voru ákveðin, en eftir röntgenmyndatöku kom í ljós skaði á olnbogalið vinstri vængs en engin merki um beinbrot.

Dýralæknir Dýraþjónustu Reykjavíkur og fulltrúi frá Náttúrufræðistofnun skoðuðu myndirnar sem voru einnig metnar af sérfræðingum erlendis.

„Niðurstaða sérfræðinga var að hann ætti ekki að finna til en mælt með sjúkraþjálfun. Vegna orðins skaða heldur fálkinn öðrum vængnum öðruvísi upp að líkamanum,“ segir í færslu Húsdýragarðsins.

Þjálfun haldið áfram fram á vor 

Terézia, fulltrúi Náttúrfræðistofnunar, hefur áralanga reynslu af þjálfun fálka, en það tók Ljúfu þrjár vikur að læra að treysta henni og vilja gera æfingar. Fram kemur að unnið hafi verið út frá jákvæðri styrkingu.

Að öllu óbreyttu verður þjálfun haldið áfram fram á vor en þá verða ákvarðanir teknar um næstu skref.

„Markmiðið er ávallt að villt dýr sem lent hafa í hremmingum komist aftur út í náttúruna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert