Samningur við Festi borginni í hag

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Hari

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að samningur Reykjavíkurborgar við Festi um ráðstöðvun lóðar bensínstöðvar N1 við Ægisíðu hafi verið gerð með hagsmuni borgarbúa í huga.

Morgunblaðið lagði nokkrar spurningar fyrir Dag um málið og svörin tekin saman í frétt þess í dag, en hér á eftir fara spurningarnar og svör borgarstjóra í heild sinni:

1. Af hverju var gerður samningur við Festi um uppbyggingu á lóð, sem leigusamningur rennur út um eftir 5 ár?

„Vegna þess að það var borginni í hag að gera þennan samning frekar en að bíða. Lóðaleigusamningar eru mismunandi. Í samningnum um Ægissíðuna eru ákvæði um uppkaup við lok samnings á matsvirði sem hefði hlaupið á hundruðum milljóna, auðveldlega um 300-400 mkr miðað við markaðsverð atvinnuhúsnæðis. Til viðbótar hefði bæst kostnaður við niðurrif og hreinsun sem hefði getað orðið 100-200 mkr. Ljóst er því að samþykkja hefði þurft mikið byggingarmagn til að ná þessum kostnaði til baka. Hagsmunir borgarinnar voru því betur tryggðir með því að ná samningum, fækka bensínstöðvum innan hverfisins og flýta uppbyggingu íbúða og hverfistengdrar þjónustu í hennar stað. 

Samningurinn er hluti af heildarsamningum við rekstraraðila um fækkun bensínstöðva með það að markmiði að fækka þeim um helming í borginni. Allir flokkar í borgarstjórn studdu aðferðarfræðina og samningsmarkmið borgarinnar í verkefninu sem sett voru fram við upphaf viðræðna í maí 2019.“

„Nei. Ákvæðin í umræddum lóðaleigusamningi eru þannig að lóðin hefði ekki runnið til borgarinnar henni að kostnaðarlausu. Greiða hefði matsverð fyrir fasteignirnar að mati dómkvaddra matsmanna, eins og segir í lóðaleigusamningi og síðan kosta niðurrif og hreinsun. Markmið borgarinnar er að flytja bensínstöðvar út úr hverfum til að minnka umferð en fá íbúðir og hverfisþjónustu í staðinn

3. Í athugasemd frá Reykjavíkurborg er dregið í efa að mat, sem birtist í frétt blaðsins, um virði byggingarréttarins sé raunhæft, það sé mun hærra en „skynsamlegar spár“ segi fyrir. Hverjar eru þær skynsamlegu spár og hvert telur Reykjavíkurborg að virði byggingarréttarins miðað við 13-15.000 m² byggingarmagn á tæplega 6.000 m² lóð?

„Tölur Morgunblaðsins um milljarða á silfurfati eru tómur skáldskapur enda er enginn hafður fyrir þeim tölum. Ef tveim milljörðum er deilt á 50 íbúðir reiknast verðmæti byggingarréttarins á 40 milljónir á hverja íbúð sem er óbyggð og eftir að greiða gatnagerðargjöld og byggingakostnað. Slík verð hafa hvergi sést á Íslandi og eru víðs fjarri veruleikanum. Morgunblaðið verður að vanda sig miklu betur í sínum fréttaflutningi en ekki slá slíku fram. Í málinu liggur fyrir vilji til að þróa byggð á reitnum en engin staðfest byggingaráform liggja fyrir um þessa tilteknu lóð. Í samningnum er kveðið á um uppbyggingu upp á 2-4 hæðir. Það er ljóst að hún þarf að falla vel að þeirri byggð sem fyrir er.“

4. Í athugasemdinni er einnig efast um ofangreint heildarbyggingarmagn, það endurspegli vonir lóðarhafa en ekki tillögur borgarinnar og bíði afgreiðslu deiliskipulags. Lóðarhafi, sem er skráður aðili á markaði, hefur lýst þessum fyrirætlunum í opinberum fjárfestakynningum án athugasemda Reykjavíkurborgar og inngangur í samningi við borgarina gefur til kynna sameiginlegan skilning á uppbyggingunni. Hefur borgin gert eigin tillögur? Er borgin mótfallin tillögum lóðarhafa? Við hvaða byggingarmagn telur borgin rétt að miða á þessum reit?

„Lóðahafi hefur ekki lagt neinar formlegar tillögur fram en hefur tvö ár til þess frá undirritun samningsins sem fram fór sl. sumar. Deiliskipulagsferlið er því ekki hafið. Í samningunum liggur það þó fyrir að miðað er við 2-4 hæðir. Ég geri ráð fyrir að það sé í samræmi við þær hugmyndir sem lóðahafi hefur gert sér.“

5. Af hverju var síðan breytt aðalskipulagi, sem nú heimilar 5. hæðina á byggingu þarna?

„Í Aðalskipulagi Reykjavíkur eru þrír hæðarflokkar. Fimm hæðir og undir, fimm til átta hæðir og níu hæðir og yfir. Eðlilegt í ljósi stöðu þessa reits er að hann færi í neðsta flokkinn, þ.e.a.s. undir fimm hæðum. Það gefur þó ekki fyrirheit um að heimilt sé að byggja fimm hæðir enda hefur alltaf verið rætt um 2-4 hæðir sem kallast á við önnur hús í götunni. Endanlegar hæðir húsa eru ákveðnar í deiliskipulagi.“

Rétt er að benda á að í frétt Morgunblaðsins í dag er einnig að finna önnur sjónarmið um virði byggingarréttarins að mati byggingarverktaka, auk aðfinnslna íbúa í hverfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert