Vissum að þeir yrðu tilbúnir að fórna öllu fyrir hvað sem er hérna

Ísak Andri Sigurgeirsson, leikmaður Stjörnunnar, með boltann í leiknum í …
Ísak Andri Sigurgeirsson, leikmaður Stjörnunnar, með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var erfiður leikur, eins og við áttum von á,“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, eftir jafntefli gegn Fylki, 2:2, í Garðabænum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Fylkir er mjög gott og kraftmikið lið með marga góða leikmenn. Þetta hefur verið upp og niður hjá þeim en við vissum að þeir yrðu mjög þéttir og að þeir yrðu tilbúnir að fórna öllu fyrir hvað sem er hérna. Þetta var erfiður leikur og fínt stig að lokum en það var margt sem við hefðum getað gert betur.

Í fyrri hálfleik vorum við að spila allt of mikið stutt þegar svæðið var opið fyrir aftan. Þegar við förum að leita í lengri bolta, því þeir voru nokkuð hátt með línuna, komu opnanir. Svo verðum við passífir þegar við komumst yfir og það er ekki gott. Við verðum að vera ákveðnir sama hvernig staðan er.

Þeir skora eftir skyndisóknir og langa bolta aftur fyrir á Þórð [Gunnar Hafþórsson]. Við vissum að það væri hætta og Benedikt Daríus er mjög klókur að komast inn í sendingar og keyra á lið. Þetta var þannig séð eftir bókinni hjá þeim og ég hefði viljað sjá okkur eiga betur við það.“

Jökull er nú einn aðalþjálfari Stjörnunnar eftir að Ágúst Gylfason var látinn fara frá félaginu. Þeir byrjuðu tímabilið saman sem þjálfarar liðsins. Jökull segist ekki hafa breytt miklu eftir breytingarnar á teyminu.

„Þetta er mjög svipað. Auðvitað eru einhverjar litlar breytingar en það er ekkert stórt sem breytist. Ég er auðvitað ekki einn, ég er með góða menn með mér sem eru mjög afgerandi öflugir í sínu. Við höldum því bara áfram.“

Stjarnan er með sjö stig eftir átta umferðir en í síðustu þremur leikjum hefur liðið náð í fjögur stig og farið áfram í bikarnum.

„Ég er bjartsýnn á að við getum tekið það sem við gerðum í dag og gert það enn betur á sunnudaginn. Það væri ágætis byrjun hjá okkur.“

Jökull I. Elísabetarson og Ágúst Þór Gylfason.
Jökull I. Elísabetarson og Ágúst Þór Gylfason. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert