Ráðist á leigubílstjóra í Hafnarfirði

Karlmaður var handtekinn í Hafnarfirði í nótt eftir að hafa ráðist á leigubílstjóra. Árásarmaðurinn var í mjög annarlegu ástandi þegar lögregla kom á vettvang og var hann vistaður í fangaklefa þar sem hann bíður skýrslutöku. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Þá var maður handtekinn í Hlíðunum í Reykjavík vegna brota á nálgunarbanni og fyrir að hafa haft í hótunum. Gistir hann nú fangageymslur.

Brotist var inn í geymslur í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði og ýmsu stolið, þar á meðal rafmagnshlaupahjóli. Einnig var brotist inn í íbúðarhús í Kópavogi en ekki liggur fyrir hvort einhverju var stolið.

Reykræsta þurfti íbúð í Grafarvogi í gærkvöldi eftir að páskalambið, sem hafði verið fulllengi í ofninum, brann við.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í Kópavogi undir áhrifum fíkniefna og reyndist annar þeirra í þokkabót áður hafa verið sviptur ökuréttindum.

Ökumaður í Bústaðahverfi var fluttur á slysadeild eftir að hafa ekið á vegrið. Bíllinn er illa farinn og þurfti kranabíl til að draga hann af vettvangi. Engum sögum fer af líðan mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert