44 stig Lillard í naumum sigri

Damian Lillard lék vel í nótt.
Damian Lillard lék vel í nótt. AFP

Damian Lillard fór fyrir sínum mönnum í Portland Trail Blazers þegar liðið vann 123:119 sigur gegn Sacramento Kings í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Lillard skoraði 44 stig og gaf sjö stoðsendingar að auki. Liðsfélagi hans Enes Kanter reyndist liðinu sömuleiðis drjúgur með tvöfalda tvennu. Skoraði Kanter 22 stig og tók 21 frákast að auki.

Portland er þar með búið að vinna þrjá leiki í deildinni í röð og hefur alls unnið 21 af 35 leikjum sínum, sem er besta byrjun liðsins síðan árið 2015.

Sá stigahæsti samur við sig

Bradley Beal, stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar þetta tímabilið, hélt uppteknum hætti þegar lið hans Washington Wizards vann LA Clippers naumlega, 119:117.

Skoraði hann 33 stig og tók sjö fráköst að auki. Russell Westbrook, samherji hans, átti stórleik og var með tvöfalda tvennu. Skoraði hann 27 stig auk þess að gefa 11 stoðsendingar og taka níu fráköst.

Sjö aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Portland – Sacramento 123:119

Washington – LA Clippers 119:117

Boston – Toronto 132:125

New York – Detroit 114:104

Indiana – Denver 103:113

Memphis – Milwaukee 111:112

New Orleans – Miami 93:103

San Antonio – Oklahoma 102:107

Phoenix – Golden State 120:98

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert