Ég á svo mikið af gömlum lærisveinum

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar. mb.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ótrúlega ánægður með strákana,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir stórsigur liðsins gegn Stjörnunni, 35:26, í undanúrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarsins, í Laugardalshöll í kvöld.

„Þetta var frábær leikur af okkur hálfa og við hittum svo sannarlega á rétta spennustigið í kvöld. Við vitum það að við erum geggjaðir í handbolta þegar að við erum á deginum okkar. Þetta var okkar dagur og það gekk allt upp ef svo má segja. Auðvitað munaði miklu um það að fá þessa markvörslu strax í upphafi leiks en ég er líka ótrúlega ánægður með stuðninginn sem við fengum hérna í kvöld.

Byrjunin á leiknum gaf okkur mikinn kraft á meðan hún dró úr þeim. Ég fann það strax í upphitun, og þegar leikurinn byrjaði, hversu vel innstilltir við vorum. Þetta snérist fyrst og fremst um hausinn á okkur og ég er ótrúlega sáttur með frammistöðu allra leikmanna liðsins í þessum leik,“ sagði Gunnar.

Árni Bragi Eyjólfsson skýtur að marki Stjörnunnar í leiknum.
Árni Bragi Eyjólfsson skýtur að marki Stjörnunnar í leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuðningurinn gaf okkur ótrúlega mikið

Stuðningsmenn Aftureldingar voru frábærir í kvöld í stúkunni og studdu vel við bakið á sínu liði.

„Stuðningurinn gaf okkur ótrúlega mikinn kraft og að finna fyrir honum strax í upphitun hjálpaði okkur mikið. Á sama tíma er þetta bara einn leikur unninn og við ætlum okkur að sækja þennan titil en við erum meðvitaðir um það að verkefnið verður ærið á laugardaginn.“

Afturelding mætir Haukum í úrslitaleik á laugardaginn kemur en Gunnar tók við Aftureldingu sumarið 2020 eftir að hafa stýrt Hafnfirðingum í fimm ár þar á undan.

„Ég er búinn að þjálfa svo mörg lið að ég á mikið af gömlum læriveinum. Haukar eru flottur klúbbur og frábært lið en við erum það líka. Haukarnir voru frábærir í kvöld, eins og við, og vonandi fáum við frábæran úrslitaleik,“ bætti Gunnar við í samtali við mbl.is.

Það var hart tekist á í Laugardalshöll í kvöld.
Það var hart tekist á í Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert