Stóru fasteignafélögin þrjú, Eik, Reitir og Reginn, urðu fyrir neikvæðum áhrifum af faraldrinum á síðasta ári. Á meðal eigna félaganna eru hótel sem og húsnæði fyrir veitingastaði og verslanir í miðborg Reykjavíkur. Leigutakar þessara eigna hafa orðið fyrir einna mestri tekjuskerðingu í faraldrinum, sem hefur haft áhrif á leigufélögin með ýmsum hætti. Sjást áhrifin helst í virðisrýrnun viðskiptakrafna og minna sjóðstreymi vegna frestunar og niðurfellingar leigugreiðslna.

Í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabankans, er í þessu sambandi sérstaklega vikið að dómi Héraðsdóms Reykjaness frá því í mars í máli sem tengist Fosshóteli Reykjavík og Íþöku fasteignum. Fosshótel hætti að greiða Íþöku leigu þann 1. apríl í fyrra og bar fyrir sig óviðráðanlegum ytri aðstæðum (force majeure). Í einföldu máli varð niðurstaðan sú að Fosshóteli var gert að greiða helming vangoldinnar leigu á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 1. mars 2021. Í Fjármálastöðugleika segir að málið veki upp „spurningar um hvort leigusamningum hótela við fasteignafélög verði í auknum mæli vikið tímabundið til hliðar vegna sanngirnissjónarmiða, í tengslum við áhrif COVID-19, sem gæti haft áhrif á afkomu fasteignafélaga“.

Hjá stóru fasteignafélögunum dróst handbært fé frá rekstri saman um 41% að raunvirði frá fyrra ári.

„Grunnrekstur félaganna var þó með ágætum á seinni helmingi ársins og mældist samanlögð ávöxtun fjárfestingareigna þeirra þá 5,6%,“ segir í riti Seðlabankans. „Stór jákvæð matsbreyting litaði rekstur félaganna á fjórða ársfjórðungi en yfir árið í heild færðu félögin þrjú virði eigna sinna upp um 4,3 milljarða króna sem er um helmingi minna en var árið 2019. Þar vógust á áhrif nýrra leigusamninga, verðlagshækkana og lægri vaxtakostnaðar til hækkunar og lægra útleiguhlutfall, lægra virði hóteleigna og hærri ávöxtunarkrafa eigin fjár til lækkunar.“

Hlutabréfaverð hækkar

Á fyrstu átta mánuðum síðasta árs lækkaði hlutabréfaverð í Reginn, Eik og Reitum á bilinu 30 til 43%. Minnst lækkuðu bréf Eikar en bréf í Reitum lækkuðu mest.Frá og með september síðastliðnum hefur gengi allra félaganna aftur á móti hækkað mikið eða á bilinu 70 til 90%.

Í lok vikunnar var gengi Eikar 26% hærra en það var í byrjun árs 2020 og gengi bréfa í Regin er um 17% hærra. Gengi Reita var um það bil 2% hærra en það var í byrjun árs 2020. Í dag metur markaðurinn Eik þannig að bókfært verð eigna þeirra standi undir hlutabréfagenginu, þ.e. V / I hlutfallið er 1,04. Hjá Reitum hlutfallið 1,08 og hjá Reginn er það 1,01.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .