Héldu að 600 milljónir væru nóg

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir ámælisvert að nefndin hafi ekki verið upplýst um að aukin fjárveiting til Landhelgisgæslunnar um 600 milljónir króna í fjárlögum þessa árs myndi ekki duga til. Þau hafi talið sig vera að tryggja óbreyttan rekstur Gæslunnar.

„Auðvitað er ámælisvert, þegar við settum 600 milljónir milli annarrar og þriðju umræðu fjárlaga, að við vorum ekki upplýst um að það dygði ekki til. Við töldum okkur vera að tryggja óbreyttan rekstur og það kemur meira að segja fram í nefndaráliti meirihlutans að við töldum svo vera,“ segir Bjarkey í samtali við mbl.is.

Greint var frá því á miðvikudag að rekstri eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SIFJAR, yrði hætt á árinu í hagræðingarskyni og að undirbúa ætti söluferli hennar.

Óásættanlegt að liggi ekki fyrir hvað taki við

Áætlanir dómsmálaráðherra um að selja flugvélina var eina umfjöllunarefnið á fundi fjárlaganefndar í morgun.

„Við fengum örlítið skýrari mynd en það er kannski það sem við höfum gagnrýnt að við vorum ekki upplýst í fjárlagaferlinu að þetta væri staðan,“ segir Bjarkey.

„Ég tel ekki ásættanlegt að fara í sölu á þessari vél öðru vísi en það liggi fyrir áætlanir um hvað eigi að taka við og einhver tímalína í því. Dómsmálaráðuneytið er að vinna í því en tekur þessa ákvörðun áður en það liggur fyrir og það er kannski það sem mér þykir ámælisvert.“

Aftur fundað á mánudaginn

Bjarkey segir að ekki hafi legið skýrt fyrir hvaða áhrif það hefði ef flugvélin yrði seld.

„Okkur fannst það ekki liggja skýrt fyrir, en það kom betur í ljós þegar við vorum búin að funda með Gæslunni,“ segir Bjarkey.

Hún segir að fjárlaganefnd muni fylgja málinu eftir með fundi á mánudaginn. Þar verði fundað með fulltrúum vísindasamfélagsins, almannavarnardeildar, atvinnuflugmanna og Skipstjórnarfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert