Segir neikvæðnina ekki endurspegla álit allra

Frá kynningarfundinum í gærkvöldi.
Frá kynningarfundinum í gærkvöldi. mbl.is/Unnur Karen

Albína Hulda Pálsdóttir, íbúi við Háaleitisbraut, segir ekki rétt að fullyrða að meirihluti þeirra sem búa í hverfinu sé ósáttur við vinnutillögur hverfisskipulags Háaleitis og Bústaða. Telur hún marga jákvæða þætti felast í breytingunum og að neikvæðnisraddir endurspegli ekki skoðun allra í hverfinu.

„Ég er búin að heyra í mörgum hérna í nágrenni við okkur sem eru ágætlega jákvæðir. Fólk ætlar alveg að gera athugasemdir og það eru einhverjir blettir sem fólk er óánægt með, en það eru margir spenntir fyrir þessu,“ segir Albína Hulda sem býr ásamt fjölskyldu sinni við Háaleitisbraut.

Hún er sjálf nokkuð jákvæð í garð breytinganna sem hafa verið kynntar þó að eitthvað megi eflaust betur fara.

„Mér líst bara vel á þetta heilt yfir. Það eru alveg hlutir þarna sem þarf að skoða en þétting er bara raunveruleikinn. Það er loftslagsvá og það er ekki hægt að blása endalaust út.“

Albína Hulda Pálsdóttir, íbúi við Háaleitisbraut.
Albína Hulda Pálsdóttir, íbúi við Háaleitisbraut. Ljósmynd/Aðsend

Telur að gætt hafi verið að samráði við íbúa

Kynningarfundur var haldinn í gærkvöldi þar sem íbúar gátu kynnt sér tillögurnar og rætt við sérfræðinga Reykjavíkurborgar til að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum.

Gagnrýnisraddir hafa verið uppi um að ekki hafi verið staðið að hverfisskipulaginu í samráði við íbúa. Að sögn Albínu er það þó ekki hennar upplifun. Telur hún að íbúar hafi fengið tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri og fundirnir og umræðan sem nú eru í gangi séu hluti af því ferli.

„Ég held líka að það sé mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir að þetta eru vinnutillögur sem er verið að biðja okkur um að gefa álit á. Núna erum við að fá tækifæri til að segja hvað okkur finnst. Auðvitað er það ekki þannig að ég á eftir að verða ánægð með allt sem finnst í þessu hverfaskipulagi, en það verður líka þannig að það verður ekki allt á þessu skipulagi að veruleika.“

Telur fjölgun íbúða vera jákvæð þróun

Í tillögunum sem um ræðir er meðal annars gert ráð fyrir sautján nýjum byggingum við Bústaðaveg með 130 til 150 íbúðum. Telur Albína þessa fjölgun jákvæða að mörgu leyti. Meðal annars fyrir fjölskyldufólk sem vill stækka við sig án þess að þurfa að flytja úr hverfinu.

„Með þessari uppbyggingu mun fjölga í ákveðnum stærðarflokkum og gerðum íbúða sem eru ekki til staðar í hverfinu núna, eða er lítið af. Þetta getur líka þýtt að fólk sem er búið að búa í hverfunum getur haldið áfram að búa hér þó það vilji stækka aðeins við sig eða breyta aðeins húsnæðinu.“

Þá er hún einnig jákvæð gagnvart þéttingunni við Miklubraut. Telur hún að breytingarnar sem hafa verið boðaðar þar muni skapa huggulegt umhverfi og minnka hljóðmengun, svo eitthvað sé nefnt.

Hefur ekki áhyggjur af bílastæðum

Eitt af þeim áhyggjuefnum sem hefur borið mikið á varðandi tillögurnar eru bílastæðamál og þyngri umferð á Bústaðavegi. Hafa margir lýst yfir áhyggjur af því að þétting byggðar muni hafa neikvæð áhrif á þessa þætti.

Albína kveðst sjálf ekki hafa áhyggjur af þessu enda sé hægt að bregðast við með ýmsum leiðum. Meðal annars með því að fækka bílum á heimilum, nota strætó, hjól eða fara fótgangandi.

„Bílastæðin eru minnst uppáhaldshlutinn minn af þessu hverfi. Það er alveg margt eftirsóknarverðara að varðveita en þau. Maður þarf kannski að hugsa aðeins hvort maður þurfi ekki að nálgast hlutina á annan máta ef að bílastæðin eru orðin stóra baráttumálið manns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert