Staðan á íslenska liðinu góð

Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik á EM.
Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik á EM. AFP

Íslenska karlalandsliðið í handbolta æfir nú af krafti fyrir Evrópumótið í Ungverjalandi og Slóvakíu en Ísland leikur fyrsta leik sinn á mótinu gegn Portúgal í Búdapest eftir fimm daga.

„Æfingarnar hafa gengið vel og spilið í dag var á köflum mjög gott. Hugarfarið hjá strákunum er gott og hungrið er til staðar. Nú notum við síðustu æfingarnar til að fínpússa okkar leik jafnt í vörn sem sókn,“ er haft eftir Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara á heimasíðu HSÍ.

Í frétt á heimasíðunni er farið yfir dag í aðdraganda stórmóts en hann byrjaði á morgunmat og síðan myndbandsfundi með þjálfaranum. Í framhaldinu fóru leikmenn í meðferð hjá sjúkrateymi liðsins, en standið á liðinu er gott og enginn að glíma við alvarleg meiðsli.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert