Handbolti

Gunnar Magnússon: Okkur tókst að brjóta blað í sögu Aftureldingar

Andri Már Eggertsson skrifar
Gunnar var afar ánægður með bikarmeistaratitilinn.
Gunnar var afar ánægður með bikarmeistaratitilinn. Vísir/Hulda Margrét

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var himinlifandi eftir eins marks sigur á Haukum 28-27 í úrslitum Powerade-bikarsins. 

„Við vorum að brjóta blað í sögu Aftureldingar. Það hefur verið stífla hérna í mörg ár og þetta var léttir. Ég er svo stoltur af strákunum að hafa klárað þetta og hvernig við tókum á mótlætinu og unnum leikinn,“ sagði Gunnar Magnússon og hélt áfram að hrósa liðinu.

„Það er gaman að upplifa þetta með þeim. Þetta eru uppaldir strákar Einar Ingi, Árni Bragi, Pétur og fleiri sem hafa verið að reyna og reyna og loksins uppskera þeir. Ég er stoltur af þeim að hafa klárað þetta með Aftureldingu. Ég er einnig stoltur af ungu strákunum Þorsteini Leó, Blæ og Brynjari sem tóku þessa helgi og stigu upp. Svona verða strákar að mönnum.

Gunnar var ánægður með hvernig Afturelding náði að breyta leiknum verandi að elta Hauka í 52 mínútur.

„Ég sagði við strákana í hálfleik að við værum bara tveimur mörkum undir þrátt fyrir að hafa ekki verið með varinn bolta og vorum mjög slakir. Eftir að við lifðum fyrri hálfleikinn af þá hafði ég trú á að við myndum vinna þetta sérstaklega með þessa frábæru stuðningsmenn.“

„Við þurftum að hafa fólkið með okkur á lokasprettinum. Ég bað um fulla Laugardalshöll og fólk mætti sem gerði gæfu muninn og án þeirra hefðum við ekki klárað þetta.“

Þetta var fyrsti titillinn sem Gunnar Magnússon vann sem þjálfari Aftureldingar sem var kærkomið fyrir hann. 

„Ég sagði á fyrsta fundi þegar ég kom í Aftureldingu að ég myndi koma með titil hingað og það var mikil áskorun. Þetta var líka svona þegar ég var ÍBV og ég og Arnar náðum í fyrsta titilinn sem var mikil áskorun. Þessi helgi var frábær og mér fannst við nýta tækifærið frábærlega,“ sagði Gunnar Magnússon að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×