Gæti verið okkar síðasta tækifæri

Aron Einar Gunnarsson hefur verið fyrirliði íslenska karlalandsliðsins frá 2012.
Aron Einar Gunnarsson hefur verið fyrirliði íslenska karlalandsliðsins frá 2012. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, vonast til þess að komast á sitt þriðja stórmót með íslenska landsliðinu á HM í Katar 2022.

Aron, sem er orðinn 31 árs gamall, er samningsbundinn Al-Arabi í Katar en hann hefur verið fyrirliði íslenska liðsins frá árinu 2012.

Landsliðsfyrirliðinn var í ítarlegu viðtali við heimasíðu FIFA á dögunum þar sem hann ræddi möguleika íslenska liðsins í undankeppni HM en Ísland leikur í J-riðli undankeppninnar ásamt Þýskalandi, Armeníu, Liechtenstein, Norður-Makedóníu og Rúmeníu.

„Við erum komnir með nýja þjálfara og ég tel möguleika okkar góða í undankeppninni,“ sagði Aron í samtali við FIFA.

„Þýskaland er að sjálfsögðu það lið sem er líklegast til þess að fara upp úr riðlinum en svo verður þetta barátta á milli okkar og hinna liðanna.

Við erum hungraðir í að komast aftur á HM enda margir leikmenn komnir yfir þrítugt og meðvitaðir um að þetta gæti verið þeirra síðasta tækifæri að spila á stórmóti,“ bætti Aron Einar við.

Aron tók við fyrirliðabandinu hjá landsliðinu árið 2012 þegar Lars Lagerbäck var með liðið.

„Lars var að byggja upp nýtt lið og hann vildi einhvern ungan til þess að fara fyrir liðinu. Þetta var klárlega krefjandi verkefni fyrir ungan leikmann en hann sá einhverja leiðtogahæfileika í mér.

Ég gerði einhver mistök til að byrja með, sagði heimskulega hluti í viðtölum, en ég lærði og þroskaðist. Þegar að ég legg skóna á hilluna get ég stoltur sagt að ég hafi verið fyrirliði Íslands þegar liðið var að ná sínum besta árangri,“ bætti Aron Einar við.

Viðtalið í heild sinni má sjá með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert