Enski boltinn

Fyrrverandi stjóri Newcastle og West Ham látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glenn Roeder átti langan feril í fótboltanum.
Glenn Roeder átti langan feril í fótboltanum. getty/Laurence Griffiths

Glenn Roeder, fyrrverandi knattspyrnustjóri Newcastle United og West Ham United, lést í gær, 65 ára að aldri.

Roader, sem var vel spilandi miðvörður, lék lengst af með QPR og Newcastle og var fyrirliði beggja liða. Hann var í liði QPR sem komst í úrslit ensku bikarkeppninnar 1982 en tapaði fyrir Tottenham í endurteknum leik. Roader lék sjö leiki fyrir enska B-landsliðið.

Þjálfaraferilinn hófst hjá Gillingham þar sem hann var spilandi þjálfari. Roeder stýrði svo Watford í þrjú ár (1993-96) og var svo í þjálfaraliði Glenns Hoddle með enska landsliðið.

Roeder tók við West Ham 2001 og undir hans stjórn endaði liðið í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2001-02. Næsta tímabilið gekk ekki jafn vel og West Ham féll. Vorið 2003 greindist Roeder með heilaæxli og stýrði West Ham ekki í síðustu þremur leikjum tímabilsins. Hann var rekinn frá West Ham um haustið.

Roeder stýrði Newcastle á árunum 2006-07 og undir hans stjórn vann liðið InterToto bikarinn 2006.

Hann stýrði Norwich City í ensku B-deildinni 2007-09. Síðasta starf hans í fótboltanum var ráðgjafi knattspyrnustjóra hjá Stevenage.

„Glenn var frábær náungi sem elskaði fótbolta og var mikill fjölskyldumaður,“ sagði Chris Waddle sem lék með Roeder hjá Newcastle.

„Þú sérð á að viðbrögðunum hvað öllum fannst um hann. Hann var mikill fagmaður en hafði góðan húmor. Hann var einn af fyrstu vel spilandi miðvörðunum, ekki ósvipaður Rio Ferdinand. Hann vildi ekki bara standa í vörninni og skalla og hreinsa boltann í burtu. Hann vildi spila.“

Alan Shearer minntist líka Roeders í Match of the Day á BBC í gær. „Ég var heppinn að vinna með honum hjá Newcastle. Frábær leikmaður, fyrirliði og stjóri Newcastle. Umhyggjusamur og indæll. Frábær manneskja og mikill fagmaður sem verður sárt saknað. Við sendum fjölskyldu hans samúðarkveðjur,“ sagði Shearer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×