Sumarbústaður brann til kaldra kola

Tilkynning um eldinn barst um sjöleytið í morgun.
Tilkynning um eldinn barst um sjöleytið í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Sumarbústaður brann til kaldra kola við Apavatn í morgun. Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar á vettvang upp úr klukkan sjö í morgun vegna elds sem hafði kviknað og fljótlega kom í ljós að um bústað var að ræða.

Að sögn Halldórs Ásgeirssonar, aðalvarðstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu, var bústaðurinn alelda og fallinn niður þegar slökkviliðið kom á staðinn. Um reisulegt sumarhús var að ræða, kjallara, hæð og ris, við vatnsbakkann.

Ljósmynd/Aðsend

„Um leið og ljóst var að enginn var á staðnum og engu þurfti að bjarga fór slökkviliðið í það verkefni að vernda umhverfið. Miðaðist slökkvistarfið við að mengað slökkvivatn færi ekki út í Apavatn, Slökkvistarfinu lauk upp úr klukkan ellefu í morgun,“ segir Halldór og bætir við að bústaðurinn sé algjörlega ónýtur.

„Komin bullandi gróðureldatíð“

„Við höfum verið að messa út af gróðureldum. Nú er komin bullandi gróðureldatíð. Það er allt þurrt og sina eins og aldrei áður. Í þessu tilfelli er þetta sumarhús sem stendur á hefðbundinni sumarhúsalóð en í kringum það er slétt og vel slegin grasflöt allan hringinn. Það bjargar því að eldur hleypur ekki í gróður og karga þarna í kring. Þá hefðum við verið komnir í allt, allt aðrar aðstæður,“ segir Halldór og hvetur fólk til að hafa öryggissvæði í kringum sumarhúsin sín.

Spurður segir hann nokkra aðra bústaði vera þarna í kring en sumarhúsabyggðin sé þó ekki sérlega þétt. Hann nefnir að hjólhýsi, sem var í geymslu um 25 metrum frá bústaðnum sem brann, hafi skemmst illa vegna hita.

Ekki er vitað um upptök eldsins, en enginn hafði verið í bústaðnum síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert