Írland afléttir takmörkunum

Hárgreiðslustofur og sams konar þjónusta opna í vikunni á Írlandi.
Hárgreiðslustofur og sams konar þjónusta opna í vikunni á Írlandi. AFP

Írland aflétti í dag ferðatakmörkunum innanlands og hóf að opna í áföngum verslanir sem ekki selja nauðsynjavörur. Þetta eru mestu afléttingar sem hafa verið gerðar þar í landi á þessu ári.

Eftir meira en fimm mánuði af miklum takmörkunum var loks aflétt banni við ferðalögum á milli sýslna. Þá er hárgreiðslustofum og sams konar þjónustu leyfilegt að opna ásamt söfnum og annarri menningarstarfsemi.

Um tólf þúsund fyrirtæki munu opna aftur í vikunni og segir Leo Varadkar aðstoðarforsætisráðherra þetta vera augnablikið sem fyrirtæki á Írlandi hafi verið að bíða eftir.

„Þetta hefur verið lengsta lokun síðan heimsfaraldurinn hófst. Ég er staðráðinn í að gera allt sem við getum til að tryggja að þetta verði sú síðasta.“

Tæplega fimm milljónir manns búa á Írlandi og hafa um fimm þúsund manns dáið úr Covid-19. Eftir tilslakanir síðastliðinn desember fjölgaði tilfellum verulega og urðu með þeim flestu í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert