Fjórir dæmdir vegna sprengjutilræðis

Samkvæmt dómara átti að koma sprengjunum fyrir á svæðum sem …
Samkvæmt dómara átti að koma sprengjunum fyrir á svæðum sem eru opin almenningi. AFP/Isaac Lawrence

Fjórir nemendur voru í dag dæmdir vegna aðildar að tveimur sprengjutilræðum í Hong Kong fyrir tveimur árum. 

Nemendurnir voru á aldrinum 17 til 21 árs og voru tveir þeirra undir lögaldri. Sá elsti hlaut ríflega fimm ára fangelsisdóm en hinir voru sendir í svokallaða endurhæfingarmiðstöð.

Nemendurnir voru hluti af aðgerðarhópnum „Returning Valiant“ sem hefur kallað eftir sjálfstæði Hong Kong frá Kína. 

Enn á eftir að rétta yfir fjórum öðrum í tengslum við málið, eru þau á aldrinum 19 til 26 ára. 

Tókst ekki að tryggja réttu efnin

Hópurinn er sagður hafa skipulagt árið 2021 að búa til sprengjur sem átti að koma fyrir á svæðum sem eru opin almenningi og sprengja. 

Áður en þeim tókst að tryggja sér efnin sem þurfti til að búa til sprengjurnar voru þau handtekin í júlí sama ár.

Hópurinn játaði sök í einum ákærulið, þ.e. að hafa átt samráð um að valda sprengingu. Þau viðurkenndu þó ekki sök í aðalákæruliðnum sem var samráð um að framkvæma hryðjuverk.

Aðeins einn sem tók virkan þátt í að skipuleggja

Hinn 21 árs gamli Alexander Au hlaut þyngsta dóminn en að sögn dómarans í málinu tók hann virkan þátt í skipulagningunni, leigði herbergi, skipulagði og undirbjó og gerði úttekt á þeim svæðum sem átti að sprengja.

Þá taldi hann hina nemendurna einungis vera að fylgja fyrirmælum og mistókst þeim m.a. að útvega efnin sem þurfti í sprengjurnar. Voru yngri nemendurnir sendir í þjálfunarbúðir þar sem áhersla er lögð á endurhæfingu fyrir unglinga og ungmenni á aldrinum 14 til 20 ára. Veltur lengd dvalar þeirra á mati sem verðir í búðunum sjá um. Enginn getur þó dvalið þar í lengur en þrjú ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert