Dómur héraðsdóms þyngdur

Landsréttur þyngdi tveggja ára dóm Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir ofbeldi, kynferðisbrot …
Landsréttur þyngdi tveggja ára dóm Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir ofbeldi, kynferðisbrot og hótanir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur dæmdi í dag karlmann til tveggja og hálfs árs fangelsisrefsingar, óskilorðsbundið, fyrir kynferðisbrot, barnaverndarlagabrot, brot gegn valdstjórninni og brot í nánu sambandi og þyngdi þar með tveggja ára dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. október.

Var ákærða, X, gefið að sök kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa tekið utan um 15 ára gamla stúlku, kysst hana á hálsinn og reynt að kyssa hana á munninn. Var framburður stúlkunnar stöðugur og trúverðugur að mati Landsréttar á meðan ákærði hafi verið ótrúverðugur í sínum lýsingum á atburðum.

Þá var X ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað tveimur lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra lífláti þar sem hann var staddur í lögreglubifreið. Bar X því við fyrir dómi að hann hefði eingöngu verið að grínast en dómari taldi ekkert hafa komið fram sem gefið hefði lögreglumönnunum, sem hótanirnar beindust að, tilefni til að að ætla að svo væri.

Lífsháski ósannaður

Að lokum var ákært fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa ráðist með ofbeldi að D og ógnað lífi hennar, heilsu og velferð. Var X gefið að sök að hafa slegið D ítrekað með krepptum hnefa í líkama, andlit og höfuð, sparkað í líkama hennar og tekið hana ítrekað hálstaki með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund auk þess að hóta henni ítrekað lífláti.

Taldi dómurinn ósannað að hálstak ákærða hefði valdið D lífshættu og auk þess sem hann taldi ekki komna fram sönnun þess að ákærði hefði á verknaðarstundu haft þann ásetning að ráða D af dögum. Var því sýknað af ákæru um tilraun til manndráps en sakfellt fyrir ofbeldisbrotið að öðru leyti.

Auk fangelsisdómsins var X dæmdur til að greiða tveimur brotaþola miskabætur, samtals 1,4 milljónir króna, auk þess að bera hluta sakarkostnaðar og greiða kostnað við geðrannsókn, rúmar 700.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert