Þrettán valdar fyrir EM-leiki í Slóveníu

Ásta Júlía Grímsdóttir í leik með U18 ára landsliði Íslands. …
Ásta Júlía Grímsdóttir í leik með U18 ára landsliði Íslands. Hún er nýliði í A-landsliðinu. Ljósmynd/FIBA

Kvennalandslið Íslands í körfuknattleik fer til Slóveníu í lok janúar og mætir þar Grikklandi og Slóveníu í undankeppni Evrópumótsins dagana 4. og 6. febrúar. Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari hefur valið þrettán leikmenn til ferðarinnar.

Ásta Júlía Grímsdóttir úr Val og Anna Ingunn Svansdóttir úr Keflavík eru nýliðar, hvorug á A-landsleik að baki. Tólf leikmenn skipa hópinn en Anna er þrettándi leikmaður og fer með hópnum til Slóveníu.

Ísland átti að spila við Grikkland á heimavelli og Slóveníu á útivelli en eins og gert var í síðustu landsliðstörn í nóvember er í staðinn spilað á heimavelli eins liðanna í riðlinum af sóttvarnaástæðum og sett upp svokölluð búbbla á viðkomandi leikstað.

Ísland hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum í riðlinum en þetta eru tveir þeir síðustu. Ljóst er að liðið heldur ekki áfram keppni. Slóvenar eiga sigur í riðlinum nokkuð vísan eftir fjóra sigra í jafnmörgum leikjum en Grikkir og Búlgarir eru með tvo sigra hvor þjóð og berjast um annað sætið. Fyrri leikurinn við Grikki, í Grikklandi, tapaðist 89:54 og fyrri leikurinn við Slóvena sem fram fór á grísku eyjunni Krít tapaðist 94:58.

Íslenski hópurinn er þannig skipaður:

Anna Ingunn Svansdóttir · Keflavík (Nýliði)

Ásta Júlía Grímsdóttir · Valur (Nýliði)

Bríet Sif Hinriksdóttir · Haukar (4) 

Dagbjört Dögg Karlsdóttir · Valur (6)

Emelía Ósk Gunnarsdóttir · Keflavík (9)

Guðbjörg Sverrisdóttir · Valur (22)

Hallveig Jónsdóttir · Valur (21)

Hildur Björg Kjartansdóttir · Valur (32)

Isabella Ósk Sigurðardóttir · Breiðablik (6)

Lovísa Björt Henningsdóttir · Haukar (4)

Sara Rún Hinriksdóttir · Leicester Riders, England (21)

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · Skallagrímur (55)

Þóra Kristín Jónsdóttir · Haukar (19)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka