Ætla að veita 13 þúsund börnum íþrótta- og tómstundastyrki

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum. Eru styrkirnir hluti af aðgerðum sem kynntar voru í vor vegna áhrifa af Covid-19 faraldrinum. Markmið styrkjanna er að jafna tækifæri allra barna til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, en þeir koma til viðbótar hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrkjum sveitarfélaga.

Alls verður 900 milljónum varið í verkefnið í ár og á næsta ári, en styrkurinn er 45 þúsund krónur á hvert barn og munu um 13 þúsund börn eiga rétt á styrknum.

Hægt er að sækja um styrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júlí 2020.

Styrkina er hægt er að nota til  niðurgreiðslu á þátttökugjöldum vegna íþróttaiðkunar, tónlistanáms eða annarra tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um úthlutun styrkjanna en fyrirkomulag getur verið breytilegt á milli sveitarfélaga til dæmis varðandi hvaða íþrótta- og tómstundastarf er styrkhæft, hvaða gögnum beri að skila með umsókn og afgreiðslutími umsókna.

Sveitarfélögin annast afgreiðslu styrkumsókna eftir að búið er að kanna rétt til styrksins inni á island.is

Í tilkynningu vegna málsins er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, að faraldurinn hafi haft gríðarleg áhrif á allt íþrótta- og tómstundastarf í landinu. „Þegar þrengir að fjárhag fjölskyldna er mikil hætta á að þær dragi úr þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi og það á sérstaklega við um fjölskyldur í neðri hluta tekjudreifingarinnar. Rannsóknir sýna að íþróttir og frístundir hafa forvarnargildi og því er gríðarlega mikilvægt að við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir brottfall hjá krökkum í íþróttum og tómstundum vegna faraldursins,“ er haft eftir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert