Yngri en 12 ára fá ekki að fara að gosinu

Ferðamenn við eldgosið.
Ferðamenn við eldgosið. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að takmarka aðgengi barna yngri en 12 ára að gosstöðvunum í Meradölum þegar svæðið er opið. Svæðið er lokað í dag.

„Erfiðlega hefur gengið að hefta för foreldra með ung börn inn að gosinu sem í flestum tilfellum eru erlendir ferðamenn og það þrátt fyrir góða upplýsingagjöf um að gossvæðið sé ekki staður fyrir ung börn að dvelja á,“ segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum sem segir að ákvörðunin sé gefin með hagsmuni barna að leiðarljósi.

„Börn og foreldrar þeirra hafa í mörgum tilfellum verið mjög illa búin og svo virðist sem fólk geri sér enga grein fyrir því hvar það er statt og hvað bíður þeirra á erfiðri og langri göngu að gosstöðvunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert