Kærendur kosninga koma fyrir nefnd í dag

Frá heimsókn undirbúningsnefndarinnar í Borgarnes. Á myndinni má sjá nefndarmenn …
Frá heimsókn undirbúningsnefndarinnar í Borgarnes. Á myndinni má sjá nefndarmenn kynna sér aðstæður á Hótel Borgarnesi. mbl.is/Theódór Kr. Þórðarson

Kærendur framkvæmdar og úrslita alþingiskosninganna koma í dag fyrir undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa og gera grein fyrir kærum sínum og umkvörtunarefnum.

Alls hafa tólf kærur borist dómsmálaráðuneytinu og Alþingi, sem undirbúningsnefndin tekur fyrir. Kærufrestur er þó ekki enn útrunninn. 

Dagurinn fari í að hlusta

Björn Leví Gunnarsson, nefndarmaður í undirbúningsnefndinni, segir í samtali við mbl.is að dagurinn í dag fari í að hlusta. Hann segir fundinum miða vel og sé gott innlegg í vinnu nefndarinnar. 

Magnús Davíð Norðdahl, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Hólmfríður Árnadóttir og Guðmundur Gunnarsson komu fyrir nefndina fyrir hádegi og koma aðrir kærendur eftir hádegi. 

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata segir ferðina í Borgarnes hafa …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata segir ferðina í Borgarnes hafa verið lykilatriði í vinnu nefndarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðin í Borgarnes nauðsynleg

Spurður segir Björn Leví að vettvangsferð undirbúningsnefndarinnar í Borgarnes fyrr í vikunni hafi verið nauðsynleg. Þar könnuðu nefndarmenn aðstæður á talningarstað, heimsóttu lögreglu og sýslumann og fylgdust með endurtalningu ónotaðra kjörseðla. 

„Ferðin fyllti vel inn í myndina, algjört lykilatriði. Það eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli,“ segir Björn Leví. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert