„Ég vildi aldrei drepa bróður minn“

Gunnar Jóhann Gunnarsson kvað ásetning sinn aldrei hafa staðið til …
Gunnar Jóhann Gunnarsson kvað ásetning sinn aldrei hafa staðið til þess að ráða Gísla Þór hálfbróður sinn af dögum í Mehamn 27. apríl í fyrra. Hann lagði spilin á borðið við aðalmeðferðina í Vadsø í dag. Ljósmynd/Erik Brenli/iFinnmark

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegur tími og á góðar minningar frá þessum tíma. Ég veit að ég drakk áfengi og ég veit að ég er hávær og ég veit að ég er hvatvís. Ég veit það alveg líka að ég segi oft hluti sem ég meina ekki.“

Þessi orð lét Gunnar Jóhann Gunnarsson falla snemma í framburðarskýrslu sinni fyrir Héraðdómi Austur-Finnmerkur í dag þegar Kåre Skognes héraðsdómari bað hann að rifja upp sambúð og samskipti þeirra Elenu Undeland, barnsmóður og fyrrverandi eiginkonu hans.

„Við komum hingað til Noregs til að leita okkur að betra lífi,“ rifjar Gunnar Jóhann upp, en í morgun hófst aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara Troms og Finnmerkur gegn honum í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø, nyrst í Noregi, skammt frá Mehamn, þar sem sá voðaatburður er málið snýst um átti sér stað snemma morguns 27. apríl í fyrra.

Gunnar rifjar þarna upp flutning þeirra Elenu, sem er hálfnorsk, til Noregs árið 2014. Allar dyr hafi þá staðið opnar, þau notið góðrar aðstoðar við atvinnuleit og nefndi Gunnar þar sérstaklega Norðmann sem útvegaði honum bát og var hjálplegur á alla lund.

Fljótlega hafi þó farið að síga á ógæfuhliðina. Bakkus var Gunnari myllusteinn um háls og setti mark sitt á sambúð þeirra.

Höndlaði ekki góðærið

„Það er einhvern veginn þannig með mitt líf að þegar hlutirnir ganga mjög vel þá er eins og ég höndli ekki góðærið. Vandamálið mitt með áfengi er að ég drekk þegar ég er glaður og ég drekk þegar ég er leiður. Ég vil ekki meina að ég hafi alltaf verið reiður og vondur þegar ég var að drekka, en vissulega var ég það stundum,“ játaði Gunnar.

Áður en hann hóf mál sitt hafði Elena, barnsmóðir hans, fyrrverandi eiginkona og höfuðvitni Torstein Lindquister saksóknara í málinu, stigið í vitnastúkuna og rætt samband þeirra, sína sýn á barnsföður sinn og fleira sem að lokum leiddi til örlagaríks fundar hálfbræðranna í apríl í fyrra, en Gísli Þór heitinn og Elena höfðu þá fellt hugi saman um nokkurra mánaða skeið.

Gunnar Jóhann kveðst hafa verið með böggum hildar í apríl …
Gunnar Jóhann kveðst hafa verið með böggum hildar í apríl í fyrra eftir að hann komst á snoðir um samband hálfbróður síns og barnsmóður. Fullyrti hann þó fyrir héraðsdómi í dag að ætlun hans hefði aldrei verið að verða bróðurbani. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hvatti Skognes héraðsdómari viðstatt fjölmiðlafólk eindregið til að gæta að því að fleiri vitni ættu eftir að stíga fram næstu daga og mæltist til þess að frásögnum af framburði einstakra vitna yrði eftir föngum stillt í hóf og eru þau tilmæli virt hér.

Elena flutti tímabundið til Íslands í janúar 2018 eftir að upp úr sauð milli þeirra Gunnars og sambandi þeirra lauk 10. júní 2017 og viðurkenndi hann sinn þátt þar án undanbragða.

„Hún var margoft búin að biðja mig að fara í meðferð. Ég ætlaði í meðferð hér í Noregi en þá var lokað yfir sumartímann svo ég kaus að fara í meðferð á Íslandi,“ sagðist Gunnari frá.

Sagði Gunnar þau Elenu hafa rætt saman í síma á hverjum degi á meðan þau voru hvort í sínu landinu auk þess sem Gunnar hafi átt samtöl við börnin á Facetime.

Eins og Gunnar hafði kosið sjálfur leitaði hann sér áfengismeðferðar á Íslandi á þessum tíma og kveðst þá jafnan hafa átt næturstað hjá Elenu þrátt fyrir að hafa vel vitað að fósturföður hennar líkaði það ekki alls kostar.

Hugðist sameina fjölskylduna

Gunnar fór svo aftur til Noregs að meðferð lokinni og bjó þá hjá Gísla hálfbróður sínum í Mehamn sem þá var í sambandi með litháenskri konu sem hafi verið mjög í nöp við að Gunnar hefði komið með son sinn inn á heimili Gísla. „Hún var alveg ótrúlega undarleg, hún vildi bara ekki hafa mig þarna með son minn,“ rifjaði Gunnar upp.

Skognes héraðsdómari innti Gunnar eftir því hvernig honum hefði verið innanbrjósts eftir að hann kom aftur til Noregs að lokinni áfengismeðferð. „Mér leið skelfilega. Ég trúði því sjálfur að ég gæti sameinað fjölskylduna aftur.“ Segir Gunnar viðhorf Elenu þá hafa verið breytt og hefði hún tjáð honum að ekkert yrði á milli þeirra aftur.

Greindi Gunnar frá því að sjálfsvígshugsanir hafi gerst áleitnar á þessum tíma og mánuðina á eftir, sem eru útmánuðir ársins 2019. „Öll okkar samskipti voru eitruð á þessum tíma og það var ekki bara ég sem var að segja slæma hluti, það þarf tvo til að dansa tangó. Þetta var ömurlegur tími fyrir mig,“ sagði ákærði.

Upp úr miðjum apríl í fyrra var Gunnar að eigin ósk lagður inn á geðdeild í Karasjok, sveitarfélagi suður af Mehamn. Honum hafi þá verið kunnugt um að hálfbróðir hans og fyrrverandi eiginkona áttu í sambandi og þyngdi sú staðreynd honum mjög. Hefði hann brugðist ókvæða við og hótað þeim báðum lífláti sem varð til þess að honum var dæmt nálgunarbann gagnvart Gísla Þór og Elenu.

Grétu bara með mér

Daginn fyrir andlát Gísla Þórs yfirgaf Gunnar Jóhann geðdeildina í Karasjok að eigin ósk og hélt til Mehamn. Skognes héraðsdómari spurði hver hvatinn að því hafi verið.

„Þar var enga hjálp að fá, þar á staðnum var enginn geðlæknir, bara einhverjir stuðningsfulltrúar. Ég grét stanslaust og þau grétu bara með mér,“ greindi Gunnar frá og sagði ekkert heilbrigðisstarfsfólk á deildinni í Karasjok hafa haft nokkurn skilning á því sem hann glímdi við.

Kvöldið fyrir morguninn örlagaríka kom Gunnar til Mehamn með leigubifreið.

„Leigubíllinn stoppaði fyrir utan húsið mitt, ég er að taka töskuna úr bílnum. Þá stoppar Norðmaður sem heitir [A], ég man ekki eftirnafnið, og sagði „það er leiðinlegt að sjá hvað bróðir þinn er að gera með fyrrverandi konunni þinni,“ og það stakk mig í hjartað. „Já, hvað getur maður sagt?“ sagði ég bara, ég gat ekkert annað sagt,“ sagði Gunnar frá.

Vadsø í austurhluta Finnmerkur, skammt frá landamærum Noregs og Rússlands. …
Vadsø í austurhluta Finnmerkur, skammt frá landamærum Noregs og Rússlands. Mál Gunnars Jóhanns er rekið fyrir héraðsdómi þar fram á þriðjudag í næstu viku. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Svo fór ég að sækja póstinn minn og hitti þar móður [X, annars Íslendings sem er vitni í málinu]. Við fórum heim til mín og seinna komu fleiri þangað, Norðmenn. Ég sagði [X] hvað [A] hefði sagt við mig. Mér leið eins og ég hefði verið settur út á torg nakinn og allir væru að horfa á mig. Skömmin var svo mikil. Að bróðir minn hafi verið að læðast inn til barnsmóður minnar og ætlað að koma börnunum mínum í föðurstað. Gísli og Elena var fólkið sem ég elskaði meira en nokkuð annað. Ég trúði ekki að þetta væri að gerast og gat ekki hugsað um annað,“ sagði Gunnar.

Hann játaði fyrir dómi að hafa átt í hótunum við Elenu og Gísla Þór, hótað þeim báðum lífláti. Lindquister saksóknari spurði þá hvað hefði búið að baki þeim hótunum.

„Ég sagði þetta allt af því að ég vildi hóta Gísla,“ svaraði Gunnar að bragði. „Ég vildi fá hann til að hætta þessu. Hvað átti ég að segja við hann? Ég er íslenskur sjómaður, ég segi við fólk „ég drep þig!“ ef ég er ósáttur við það, en það hefur þó aldrei gerst áður.

„Ég vildi aldrei drepa bróður minn“

Ég vildi aldrei drepa bróður minn. Ég hélt að Gísli myndi bara stoppa og hætta þessu. Svo þegar ég kem til Mehamn lítur allt bara út fyrir að hann sé fluttur inn til hennar [Elenu]. Ég hugsaði líka um börnin, hversu fáránlegt þetta væri fyrir þau, að Gísli væri frændi þeirra og fósturpabbi, þetta var bara svo mikið brjálæði fyrir mér,“ sagði Gunnar og hækkaði raust sína örlítið.

Skognes héraðsdómari bað Gunnar þá að rifja upp nóttina örlagaríku.

„Strákarnir sögðu við mig „Gunnar, í kvöld skulum við bara drekka,“ og ég var svo sáttur við það, ég vildi bara drekka mig fullan og geta gleymt ástandinu í bili. Við fórum svo út, fórum á skemmtistaði en það var bara enginn úti að skemmta sér þetta kvöld. Svo þegar við komum á Nissen-barinn [í Mehamn] helltist þetta allt yfir mig aftur, ég fór að hugsa um hvernig bróðir minn gæti gert mér þetta. Og þá ákvað ég að fara heim til hans og hræða hann,“ segir Gunnar.

Mette Yvonne Larsen, réttargæslumaður brotaþola í Mehamn-málinu, sagðist í janúar …
Mette Yvonne Larsen, réttargæslumaður brotaþola í Mehamn-málinu, sagðist í janúar sátt við ákæruna á hendur Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, maður sem komi reiður með hlaðið skotvopn á heimili hálfbróður síns megi reikna með að eitthvað gerist. Ljósmynd/Henrik Evertsson/Advokatbladet

„Ég vildi bara fá hann til að pakka niður, taka draslið sitt og bátinn sinn og koma sér frá Mehamn. Ég hafði tvo valkosti, annaðhvort að hengja mig og láta börnin mín alast upp án mín eða fá bróður minn til að hætta þessu. Á þessum tíma sá ég þetta sem einu valkostina. Þetta var brjálæði, ég viðurkenni það alveg,“ rifjar sakborningurinn upp.

„Þegar við gengum frá Nissen-barnum gekk ég hratt heim og fékk þá þessa hugmynd í hausinn á mér, nú ætla ég að gera þetta...

[Ég] fór svo heim til mín, þar var annar maður [Norðmaður]. Ég sagði honum hvað ég var að hugsa og hann varð mjög stressaður.

Sótti byssuna í bátinn

Svo keyrði ég á mínum bíl að bátnum sem ég var á, [Z], og sótti þangað haglabyssu. Keyrði til baka og áttaði mig þá á að ég var ekki með nein skot svo ég keyrði aftur í bátinn, sótti skotin, keyrði svo heim og skilaði bílnum og fór svo heim til bróður míns.“

Þar með játaði Gunnar Jóhann að hann hefði haft aðgang að haglabyssu fyrir fram og sagði enn fremur frá því að hann hefði áður sýnt norskum vini sínum, [Y], skotvopnið sem hefði handleikið það og norska rannsóknarlögreglan Kripos því fundið fingraför þeirra beggja á vopninu.

Stjórnandi lögreglurannsóknarinnar hélt því fram við mbl.is í maí í fyrra að Gunnar hefði útvegað sér skotvopnið fyrst þá um nóttina en mbl.is stendur við þá frásögn sína og norska vefmiðilsins iFinnmark, eftir framburðinn í dag, að Gunnar hafi haft aðgang að vopninu áður.

Heima hjá Gunnari var Íslendingurinn X enn staddur og segir Gunnar X hafa grátbeðið sig að fara ekki heim til Gísla Þórs í þáverandi ástandi.

Kirkjan í Mehamn setur mikinn svip á þetta litla bæjarfélag …
Kirkjan í Mehamn setur mikinn svip á þetta litla bæjarfélag við Barentshafið. Þarna hélt Maria Dale, fyrrverandi sóknarprestur brauðsins, minningarathöfn um Gísla Þór Þórarinsson heitinn 27. apríl í fyrra. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég vonaði að Gísli væri sofandi í sófanum heima hjá sér, hann svaf alltaf í sófanum,“ sagði Gunnar, en tóm íbúð bróður hans hafi aðeins styrkt hann í þeirri trú að Gísli Þór hefði varið nóttinni heima hjá Elenu.

„Ég sagði honum að ég ætlaði bara að skjóta í sófann, ég ætlaði bara að hræða Gísla,“ sagði Gunnar.

Heyrði útidyrnar opnast

Að áeggjan dómara lýsti hann svo atburðarásinni. „Ég fór inn um eldhúsið, ég vissi að Gísli heyrði illa og þar heyrðist minna. Svo fór ég inn í gamla herbergið mitt heima hjá honum. Skoðaði þar Facebook hjá Gísla sem var opin í tölvunni hans. Ég skoðaði samtöl milli Gísla og Elenu og þar var ég að engu gerður. Ég hefði ekki getað trúað því að þau töluðu svona um mig. Ég brotnaði niður og grét.“

Næst segist Gunnar hafa heyrt útidyrnar opnast.

„Ég opnaði dyrnar fram úr herberginu og þar stóð Gísli. Ég gekk grátandi á móti honum, miðaði byssunni á hann og spurði hvernig hann gæti gert mér þetta.

Það sem gerðist svo á eftir var bara eins og bílslys, þetta gerðist svo hratt. Bróðir minn greip þá snögglega í byssuna, tók mjög hratt og snöggt í hana og skotið fór af. Eftir að skotið fór af réðst hann á mig og við duttum báðir á gólfið. Við slógumst í smástund og svo hljóp annað skot af byssunni. Ég vissi ekki þá að fyrra skotið hefði farið í hann, það var enn svo mikill kraftur í honum að hann negldi mér í gólfið. Við börðumst um vopnið á gólfinu.“

Er hér var komið sögu bugaðist Gunnar Jóhann í frásögn sinni af atburðum og Skognes héraðsdómari gerði 15 mínútna hlé.

Sá allt blóðið

„Ég vildi alls ekki að bróðir minn myndi tapa lífinu þennan dag, alveg sama hvað ég sagði dagana áður, þar var það bara stoltið mitt sem var að tala,“ sagði Gunnar er hann fékk mælt á ný.

„Eftir að seinna skotið hljóp af og ég sá allt blóðið áttaði ég mig á að hann hafði orðið fyrir skoti. Ég hlóð byssuna þá aftur og ætlaði að skjóta mig. Gísli sagði þá fyrirgefðu og ég sagði við hann að ég ætlaði að fara og ná í hjálp. Ég veit að það voru fótspor eftir mig í stofunni sem segja annað en ég er að segja ykkur það að ég var bara að hugsa um að bjarga honum,“ sagði Gunnar.

Anja Mikkelsen Indbjør, saksóknari lögregluembættisins í Finnmörk, var viðstödd aðalmeðferðina …
Anja Mikkelsen Indbjør, saksóknari lögregluembættisins í Finnmörk, var viðstödd aðalmeðferðina í dag. Myndin er tekin í fyrravor. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

Hann hafi þá hlaupið aftur yfir í sína íbúð í Mehamn og beðið X að hringja þegar í stað á sjúkrabifreið. „[X] talar skelfilega ensku og ég reif símann af honum og sagði bara „Gísli Þór Þórarinsson, Lillebergveien.“

Ég var svo viss um að þeir væru bara að koma strax, ég vissi ekkert að það væru reglur um að þeir mættu ekki fara inn ef það væri byssa. [X] fór í sjokk þegar hann sá mig, ég var allur í blóði. Hann bað mig að keyra sig til Gamvikur.

Var í algjöru sjokki

Ég er búinn að hugsa þúsund sinnum hvað annað ég hefði getað gert til að bjarga bróður mínum, það vita allir sem þekkja okkur að ég elskaði engan eins mikið og hann. Þannig að það að ég hafi viljað bróður minn dauðan er ekki satt, sama hvað hver segir. Þótt ég hafi verið alveg brjálaður út í hann hefði ég aldrei óskað þess að hann tapaði lífi sínu þennan dag.

Við bræðurnir lentum saman eins og tveir bílar og voðaskot hljóp af,“ sagði Gunnar Þór dómendum og öðrum viðstöddum í dag.

„Ég var í algjöru sjokki, ég var í algjöru sjokki alveg þar til lögreglan handtók mig, að ég hefði óvart orðið bróður mínum að bana. Því hefði ég aldrei trúað.

Við keyrðum til Gamvikur, [X] var að skamma mig allan tímann. Ég sagði honum að þetta væri slys. Á leiðinni yfir til Gamvikur keyrði ég eins og brjálæðingur.“

Svo fór að Gunnar missti stjórn á bifreiðinni og ók út af veginum, skömmu áður en þeir X, sem um tíma lá undir grun í málinu en síðar kom í ljós að átti þar enga sök, voru handteknir í Gamvik.

Máttur fyrirgefningarinnar

„Gísli var besti gæi sem ég þekkti, við gengum saman gegnum lífið. Við fengum ekkert bestu æsku sem til er, áttum veika móður og hver höndin var upp á móti annarri. Ég skil ekki hvernig þetta endaði allt svona.“

Skognes spurði þá hvort Gunnar hefði fyrirgefið hálfbróður sínum.

„Sko, ég var fárveikur, það eina sem ég átti eftir var mín trú. Kristin trú snýst öll um fyrirgefningu og ég er mjög trúaður [...] Ég komst að þeirri niðurstöðu þegar ég var í Karasjok að ef ég myndi gera bróður mínum eitthvað þá myndi ég enda í fangelsi og ef ég myndi enda í fangelsi myndi ég ekki sjá börnin mín. Og það eru þau sem hafa haldið lífinu í mér þennan tíma síðan þetta gerðist.

Lindquister saksóknari spurði Gunnar hér hvort skynsamlegt hefði verið að ætla bara að fara að skemmta sér, nýkominn út af geðdeild og með böggum hildar.

Are Sandnes, starfandi sóknarprestur í Mehamn, ræddi um sorg og …
Are Sandnes, starfandi sóknarprestur í Mehamn, ræddi um sorg og sorgarviðbrögð í litlum samfélögum við mbl.is í júní í fyrra. Kvað hann atburðinn í Mehamn hvort tveggja sorglegan og ógnvekjandi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég var ekkert að hugsa um að fara í partý eða skemmta mér, ég var bara að hugsa um að drekka brennivín til að deyfa vanlíðan mína.“

Saksóknari spurði þá enn um drykkjuna eftir að Gunnar kom út af deildinni í Karasjok. Spurði nánar til tekið hvort Gunnar hefði talið sig eiga það skilið að drekka áfengi eftir allar líflátshótanirnar. Bjørn Gulstad, verjandi Gunnars, mótmælti spurningunni og var hún dregin til baka.

„Gastu ekki talað við hann?“

„Allt sem ég gerði þetta kvöld var út í hött,“ játaði Gunnar.

„Hvað var það sem gerði útslagið um að þú ákvaðst að fara til Gísla?“ spurði saksóknari.

„Ég vildi bara fá hann burt, mér leið eins og hann væri búinn að setja mig alveg út í horn. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera, hvað átti ég að gera?“

„Gastu ekki talað við hann?“ spurði Lindquister þá.

„Hann var búinn að fá nálgunarbann á mig. Þetta fór allt úr böndunum, það fór allt í rugl þetta kvöld,“ var svarið.

„Af hverju fórstu til baka og náðir í skotin?“ spurði saksóknari.

„Af því ég ætlaði að skjóta í sófann eða gólfið.“

„Hefðirðu ekki getað farið með byssuna tóma? Hann hefði ekki vitað hvort hún væri hlaðin“

„Ég vissi ekki að þetta myndi fara svona, það komst bara ekkert annað að í hausnum á mér,“ svaraði Gunnar Jóhann Gunnarsson.

Með þessum orðaskiptum lyktaði aðalmeðferð í dag, fram undan eru vitnaleiðslur og á miðvikudag ræðir norska rannsóknarlögreglan Kripos sína aðkomu að málinu og gerir grein fyrir rannsóknum á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert