Eftir frábæran árangur á síðustu leiktíð hefur hvorki gengið né rekið hjá Union Berlín á leiktíðinni. Því ákvað stjórn félagsins að láta Urs Fischer fara sem þjálfara liðsins. Marco Grote, sem stýrði U-19 ára liði félagsins, mun taka við liðinu tímabundið og Marie-Louise mun aðstoða hann líkt og hún gerði hjá U-19 ára liðinu.
Hin 32 ára gamla Marie-Louise á að baki glæstan leikmannaferil þar sem hún vann til að mynda Meistaradeild Evrópu árið 2010 með Turbine Potsdam. Þá varð hún Þýskalandsmeistari þrjú ár í röð.
Hún spilaði einnig með Hamburg, Cloppenburg og Werder Bremen áður en skórnir fóru upp í hillu þegar hún var aðeins 26 ára. Hún hafði starfað fyrir Werder Bremen og þýska knattspyrnusambandið áður en hún tók við starfi aðstoðarþjálfara U-19 ára liðs Union Berlín síðasta sumar.
Þann 25. nóvember næstkomandi verður hún svo fyrsta konan til að vera aðstoðarþjálfari í úrvalsdeild karla þegar Union Berlín mætir Augsburg.