Beraði sig í námunda við Seljaskóla

Þrjú tilfelli hafa komið upp á skömmum tíma þar sem …
Þrjú tilfelli hafa komið upp á skömmum tíma þar sem maður hefur berað á sér kynfærin í námunda við Seljaskóla. mbl.is/Hari

Í síðustu viku beraði maður á sér kynfærin í námunda við Seljaskóla í Breiðholti. Þetta er ekki í fyrsta sinn á árinu sem slíkt kemur upp á borð lögreglu en í janúar komu upp tvö sambærileg tilfelli. 

Einn maður hefur verið handtekinn í kjölfar tilviksins í síðustu viku. Að sögn Ævars Pálma Pálmasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns neitar sá maður sök.  

Ævar sagðist í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um hvort um sama aðila væri að ræða í öllum málunum en sagði þó að rannsókn stæði yfir á mögulegum tengslum málsins í síðustu viku við hin málin sem komu upp í janúar.  

Varðandi tilfellin sem áttu sér stað í janúar sagði Ævar að á litlu væri að byggja. Annars vegar væri um að ræða lýsingar frá börnum og svo ættu atvikin sér stað í myrkri. 

Aukinn viðbúnaður

„Lögreglan var með aukinn viðbúnað þarna næstu dagana á eftir og vikurnar í rauninni, bæði í formi aukins eftirlits á svæðinu og svo vorum bara bæði með merkta bíla og ómerkta bíla. Ég veit að skólinn sjálfur jók við eftirlit og svona viðveru á skólalóðinni á skólatíma,“ sagði Ævar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert