Semur við uppeldisfélagið tveimur áratugum síðar

Gianluigi Buffon er kominn aftur til Parma, 20 árum eftir …
Gianluigi Buffon er kominn aftur til Parma, 20 árum eftir að hann yfirgaf liðið. AFP

Gianluigi Buffon, markvörðurinn síungi, er búinn að semja við uppeldisfélag sitt Parma. Kemur hann á frjálsri sölu frá Juventus, en samningur hans rennur út í lok mánaðarins.

Buffon, sem er orðinn 43 ára gamall, hóf meistaraflokksferil sinn með Parma þar sem hann spilaði sinn fyrsta leik aðeins 17 ára gamall í nóvember 1995.

Spilaði hann alls níu deildarleiki í ítölsku A-deildinni tímabilið 1995/1996 og var orðinn byrjunarliðsmarkvörður liðsins tímabilið eftir, aðeins 18 ára.

Eftir að hafa unnið ítalska bikarinn, UEFA-bikarinn og ítalska ofurbikarinn árið 1999 með Parma söðlaði Buffon um og samdi við Juventus árið 2001.

Þar lék hann næstu tvo áratugina, fyrir utan eitt tímabil með Paris Saint-Germain, og vann ítölsku deildina tíu sinnum.

Nú snýr hann aftur í heimahagana 20 árum síðar og mun freista þess að hjálpa Parma að komast aftur upp í A-deildina, en liðið endaði í síðasta sæti deildarinnar á nýafstöðnu tímabili og mun því spila í B-deildinni á komandi tímabili.

Buffon hefur einu sinni áður spilað í B-deildinni, tímabilið 2006/2007 með Juventus, þegar liðið var dæmt niður um deild í kjölfar Calciopoli-skandalsins. Juventus vann þá B-deildina og kom sér beint upp aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert