„Sný aftur með eina mjöðm og engin ökklaliðbönd“

Andy Murray við keppni í Miami á sunnudag.
Andy Murray við keppni í Miami á sunnudag. AFP/Al Bello

Skoski tennisleikarinn Andy Murray meiddist alvarlega á ökkla við keppni á Miami Open-mótinu og verður af þeim sökum lengi frá.

Murray tapaði fyrir Tékkanum Tomás Machac, 2:1, í æsispennandi leik á sunnudag og meiddist undir lok þriðja setts.

Skotinn vann fyrsta sett 7:5, tapaði öðru setti 7:5 og þriðja setti 7:6 eftir upphækkun. BBC Sport greinir frá því að hann hafi slitið tvö liðbönd í ökkla og muni fara til sérfræðings til þess að ákvarða næstu skref.

Erfitt að sætta sig við þetta

Hann gekkst undir skurðaðgerð á mjöðm árið 2019 og hefur átt í töluverðum meiðslavandræðum æ síðan.

„Það þarf ekki að fjölyrða um það að það er erfitt að sætta sig við þetta. Ég sný aftur með eina mjöðm og engin liðbönd í ökklanum á réttum tímapunkti,“ sagði Murray.

Hann er 36 ára gamall og hafði áður látið hafa eftir sér að hann væri ekki að búast við því að spila mikið eftir sumarið en Murray vonast þó til þess að spila aftur á Ólympíuleikum áður en ferlinum lýkur.

Ljóst er að ekki verður af því í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert