Þessir fimm eru tilnefndir sem stjóri ársins í úrvalsdeildinni

Klopp og Guardiola eru báðir á lista.
Klopp og Guardiola eru báðir á lista. AFP/Glyn Kirk

Enska úrvalsdeildin hefur tilkynnt hvaða fimm stjórar koma til greina sem stjóri ársins í deildinni.

Pep Guardiola, stjóri Manchester City er að sjálfsögðu á listanum en lið hans er í efsta sæti deildarinnar og virðist fátt geta komið í veg fyrir að það vinni titilinn í ár.

Ef eitthvað getur komið í veg fyrir að City vinni titilinn er það Liverpool, en þessi tvö lið hafa verið í algjörum sérflokki í vetur. Jürgen Klopp, stjóri Liverpool er einnig að sjálfsögðu á listanum. 

Eddie Howe er einnig á lista en hann hefur gert hreint út sagt ótrúlega hluti með Newcastle eftir að hafa tekið við liðinu af Steve Bruce í nóvember. Liðið var þá í miklum vandræðum en frá áramótum hefur það varla tapað leik og verið eitt heitasta lið deildarinnar. Það situr nú í 14. sæti deildarinnar, vel fyrir ofan fallsæti.

Hinn danski Thomas Frank er einnig tilnefndur. Hann hefur náð eftirtektarverðum árangri með nýliða Brentford á þeirra fyrsta tímabili í deildinni í sögunni. Brentford er í 13. sæti deildarinnar og hefur verið laust við fallbaráttu svo gott sem allt tímabilið.

Síðasti stjórinn á listanum er Frakkinn Patrick Vieira. Hann hefur gert ljómandi fína hluti með Crystal Palace á sínu fyrsta tímabili sem stjóri í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er í 11. sæti og hefur spilað töluvert skemmtilegri bolta en það gerði undir stjórn Roy Hodgson.

Það vekur líklega athygli einhverra að stjórar eins og David Moyes, Bruno Lage eða Graham Potter séu ekki tilnefndir en þetta eru þeir fimm sem koma til greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert