Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar í máli Mjólkursamsölunnar gegn Samkeppniseftirlitnu og íslenska ríkinu. Áður hafði Landsréttur staðfest dóm héraðsdóms í málinu. Niðurstaðan felur í sér að MS þarf að greiða 480 milljónir króna í ríkissjóð í sekt vegna brota á samkeppnislögum.

Málið á rætur að rekja til ársins 2012 þegar MS sendi fyrir misgáning reikning á Mjólkurbúið Kú ehf. en þar kom í ljós að Kú greiddi mun hærra verð fyrir hrámjólk en keppinautur sinn. Kvörtun var send SKE af þeim sökum.

Árið 2014 komst SKE að þeirri niðurstöður að MS hefði brotið gegn samkeppnislögum og lagði 370 milljón króna stjórnvaldssekt á félagið. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þann úrskurð úr gildi og sendi málið á ný til SKE. Ný ákvörðun var tekin í júlí 2016 og var það niðurstaða SKE þá að MS bæri að greiða 480 milljónir króna í sekt, 440 milljónir króna í sekt fyrir brot á 11. gr. samkeppnislaga og 40 milljónir fyrir brot gegn 19. gr. laganna.

Málið fór á ný til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi ákvörðunina úr gildi að hluta. Eftir hana stóð 40 milljón króna sektin óhreyfð. Báðir aðilar stefndu málinu fyrir dóm og komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu. Héraðsdómur hafnaði því að fella 40 milljón króna sektina úr gildi, sem var krafa MS, og féllst á kröfu SKE um að fella úr gildi úrskurð nefndarinnar þannig að 440 milljón króna sektin tók gildi að nýju.

Með dómi sínum hefur Hæstiréttur, líkt og fyrr segir, staðfest dóma Landsréttar og héraðsdóms, og þarf MS því að greiða 480 milljón krónur í sekt. Því til viðbótar ber fyrirtækinu að greiða SKE þrjár milljónir króna og íslenska ríkinu 1,5 milljónir króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.

MS átti von á að Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu áfrýjunarnefndar

MS hefur sent frá sér tilkynningu þar sem sjónarmið fyrirtækisins um dóminn nýfallna. Sjá má tilkynninguna hér að neðan:

Með dómi Hæstaréttar í dag í máli nr. 26/2020 er leiddur til lykta ágreiningur um túlkun á samspili ákvæða búvörulaga og samkeppnislaga, sem hefur verið til meðferðar fyrir stjórnvöldum og dómstólum í tæpan áratug. Þar hefur legið fyrir allan tímann að Mjólkursamsalan var í góðri trú og taldi sig vera að vinna í samræmi við lög.

Það er líka ljóst að Mjólkursamsalan átti von á því að Hæstiréttur myndi staðfesta niðurstöðu Áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem hafði úrskurðað að starfshættir Mjólkursamsölunnar væru málefnalegir og samkvæmt lögum.

Fyrirtækið mun fara nánar yfir röksemdir Hæstaréttar fyrir niðurstöðunni áður en það tjáir sig frekar efnislega um dóminn.

Þegar þetta mál kom upp fyrir tæpum áratug síðan var skipulagi og framkvæmd á samstarfi afurðastöðva í mjólkuriðnaði og sölu á hrámjólk til aðila utan samstarfsins breytt, til að mæta þeim athugasemdum og ábendingum sem komið höfðu fram. Dómsniðurstaðan snýr því að afmörkuðum ágreiningi um túlkun laga í liðnum tíma, en hefur ekki bein áhrif á starfsemina í dag.

Við blasir að hagræðing í mjólkuriðnaði hefur náð þeim markmiðum sem að var stefnt með lagabreytingum sem heimiluðu verkaskiptingu og samstarf afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þær breytingar eru forsenda framleiðniaukningar sem skilað hefur milljarða króna ávinningi til samfélagsins á hverju ári.