Heimshornaflakk á Skaganum

Úr heimildarmyndinni Gunda.
Úr heimildarmyndinni Gunda.

Sautján heim­ild­ar­mynd­ir í fullri lengd og sex stutt­ar heim­ild­ar­mynd­ir verða á dag­skrá hátíðar­inn­ar IceDocs sem hefst í kvöld á Akra­nesi með sýn­ingu á Crock of Gold A Few Rounds with Shane MacGow­an, heim­ild­ar­mynd um tón­list­ar­mann­inn sem gerði garðinn fræg­an upp­haf­lega með írsku hljóm­sveit­inni The Pogu­es. Hátíðin stend­ur yfir til og með 27. júní og er aðgang­ur ókeyp­is á all­ar sýn­ing­ar.

Ingi­björg Hall­dórs­dótt­ir, stjórn­andi hátíðar­inn­ar, seg­ir hátíðina svipaða og í fyrra hvað varðar fjölda mynda og að með styrkj­um og frjáls­um fram­lög­um sé hægt að bjóða upp á frí­ar sýn­ing­ar.

Ingibjörg Halldórsdóttir.
Ingi­björg Hall­dórs­dótt­ir.

Sál­ar­sum­arið 1969

Ingi­björg er spurð að því hverj­ar séu aðal­mynd­ir hátíðar­inn­ar og nefn­ir hún fyrst eina sem bætt var við á síðustu stundu og náði því ekki inn í bæk­ling hátíðar­inn­ar. Nefn­ist sú Sum­mer of Soul (or, When the Revoluti­on Could Not Be Televised) sem hlaut bæði aðal­verðlaun og áhorf­enda­verðlaun í flokki banda­rískra heim­ild­ar­mynda á Sund­ance-kvik­mynda­hátíðinni í ár. Höf­und­ur mynd­ar­inn­ar er banda­ríski tón­list­armaður­inn Qu­estlove úr hljóm­sveit­inni The Roots og seg­ir í mynd­inni af menn­ing­ar­hátíð sem hald­in var í Har­lem í New York sama sum­ar og Wood­stock-hátíðin fór fram, árið 1969. Sóttu yfir 300.000 manns hátíðina í Har­lem þar sem menn­ing og tónlist Banda­ríkja­manna af afr­ísk­um upp­runa var í önd­vegi. Mynd­efni frá hátíðinni var í geymslu í yfir hálfa öld og er nú loks­ins orðið aðgengi­legt í heim­ild­ar­mynd­inni sem sýnd verður á sunnu­dag.

„Svo er það Mole Ag­ent frá Síle sem til­nefnd var til Óskar­sverðlaun­anna og Gunda sem fjall­ar um svínið Gunda og er eft­ir Vikt­or Kossa­kovskíj, þetta eru stóru mynd­irn­ar,“ seg­ir Ingi­björg en seg­ist þó alltaf mjög hrif­in af minni mynd­un­um. „Við erum líka með Lost Boys sem er svaka­leg frá­sögn af finnsk­um strák­um sem eru í neyslu, fara til Kambódíu og lenda í frek­ar slæm­um hlut­um þar,“ seg­ir Ingi­björg og eru viðkvæm­ir varaðir við mynd­inni. Sa­dri Cet­inkaya og Joon­as Neu­von­en eru höf­und­ar mynd­ar­inn­ar sem er ein tekju­hæsta heim­ild­ar­mynd allra tíma í Finn­landi og hef­ur hlotið mikla at­hygli og um­tal víða.

Fal­leg mynd um gyltu og grísi

Gunda fyrr­nefnd seg­ir af sam­nefndri gyltu og grís­um henn­ar og er fram­leidd af banda­ríska verðlauna­leik­ar­an­um Joaquin Phoen­ix. Mynd­in er sýnd á IceDocs í sam­starfi við Sam­tök grænkera á Íslandi og mat­ur verður í boði fyr­ir sýn­ingu. Munu umræður svo fara fram að henni lok­inni.

Ingi­björg er spurð að því hvort mynd­in sé til þess gerð að fá fólk til að hætta að borða kjöt og seg­ir hún að það sé ekki bein­lín­is svo. „Það er verið að fylgj­ast með þess­ari gyltu sem er úti í móa með grísl­ing­ana sína. Mynd­in er ofboðslega fal­lega tek­in, öll svart­hvít og maður er í raun­inni bara að fylgj­ast með dýr­un­um í sveit­inni. Það hef­ur óhjá­kvæmi­lega þau áhrif að fólk sem hef­ur kannski ekki velt svona mál­um fyr­ir sér finn­ur til sam­kennd­ar með dýr­un­um og þess vegna hef­ur hún kannski verið tengd við þess­ar hreyf­ing­ar,“ seg­ir Ingi­björg um teng­ing­una við grænkera. Mynd­in er án tals og hef­ur líka hlotið at­hygli fyr­ir aðkomu Phoen­ix sem talað hef­ur gegn kjötáti.

Mynd­ir hátíðar­inn­ar fjalla um allt milli him­ins og jarðar og seg­ir Ingi­björg að reynt sé að sýna alls kon­ar sög­ur og flakka eins mikið um heim­inn og mögu­legt er. Mik­il vinna hlýt­ur að liggja að baki skipu­lagn­ingu svona hátíðar og seg­ir Ingi­björg að hún og aðrir skipu­leggj­end­ur hafi horft á yfir þúsund mynd­ir. „Stund­um erum við með mynd­ir sem okk­ur lang­ar mikið að sýna en kannski tvær eða þrjár um svipað viðfangs­efni og þá þarf að velja á milli þeirra,“ seg­ir hún.

Boðið verður upp á ýmsa viðburði aðra en kvik­mynda­sýn­ing­ar og má af þeim nefna tón­leika, bar­svar með Nielsi Thi­baud Girerd og uppistand með Nick Jame­son. Síðast en ekki síst ber að nefna að flest­ar mynd­anna verða aðgengi­leg­ar á vef hátíðar­inn­ar, icedocs.is, um klukku­stund eft­ir að sýn­ing­ar hefjast í bíó­húsi Akra­ness, hinni fal­legu Bíó­höll.

Queendom verður heimsfrumsýnd á IceDocs.
Qu­eendom verður heims­frum­sýnd á IceDocs.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vatnsberi

Sign icon Gerðu ráð fyrir vandamálum á vinnustað í dag. Svo vilja allir í kringum þig vita hvað það er og taka þátt í spennunni. Gættu þess þó að hleypa ekki of mörgum að þér og vandaðu val þeirra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vatnsberi

Sign icon Gerðu ráð fyrir vandamálum á vinnustað í dag. Svo vilja allir í kringum þig vita hvað það er og taka þátt í spennunni. Gættu þess þó að hleypa ekki of mörgum að þér og vandaðu val þeirra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar