Rós í hnappagat Ronaldo

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu í gær. AFP

Cristiano Ronaldo skoraði sitt tuttugasta deildarmark fyrir Juventus á tímabilinu í 3:0-sigri liðsins gegn Spezia í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í gær.

Ronaldo hefur verið afar iðinn við kolann þegar kemur að markaskorun undanfarin ár en hann hefur skorað 29 mörk á tímabilinu til þessa með Juventus og Portúgal.

Sóknarmaðurinn, sem er orðinn 36 ára gamall, hefur nú skorað tuttugu deildarmörk eða meira, tólf tímabil í röð sem er met.

Tímabilið 2008-2009 skoraði Ronaldo átján deildarmörk fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en hann gekk til liðs við Real Madrid sumarið 2019.

Ronaldo hefur skorað 665 mörk á ferlinum fyrir Sporting, Manchester United, Real Madrid og Juventus og þá hefur hann skorað 102 mörk í 170 leikjum fyrir Portúgal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert