Ólafur aftur til Breiðabliks

Ólafur Helgi Kristjánsson.
Ólafur Helgi Kristjánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Helgi Kristjánsson er að hefja störf hjá Breiðabliki í vikunni þar sem hann mun starfa í kringum 2. flokk karla hjá félaginu.

Greint var frá þessu í hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni. Fótbolti.net kveðst sömuleiðis hafa heimildir fyrir þessu og greinir einnig frá því að klásúla sé í samningi Ólafs Helga um að hann geti yfirgefið Blika bjóðist honum annað starf.

Hann var síðast aðalþjálfari danska B-deildarliðsins Esbjerg en var látinn taka pokann sinn undir lok síðasta tímabils.

Ólafur Helgi er fyrrum aðalþjálfari karlaliðs Breiðabliks og stýrði liðinu til fyrsta og eina Íslandsmeistaratitils þess árið 2010. Hann stýrði Blikum einnig til fyrsta og eina bikartitils karlaliðs Breiðabliks árinu áður.

Síðast aðstoðaði hann Davíð Snorra Jónasson, aðalþjálfara U21-árs landsliðs karla, í verkefnum liðsins síðastliðið haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert