Biðin getur jafnvel verið lífshættuleg

Geðdeild Landspítala að Kleppi. „Geðþjónustan er í ákveðnum vanda, hún …
Geðdeild Landspítala að Kleppi. „Geðþjónustan er í ákveðnum vanda, hún er í húsnæðisvanda og hún er í hugmyndafræðilegum vanda,“ segir Grímur mbl.is/Hari

Það getur haft verulega neikvæð áhrif á átröskunarsjúklinga að þurfa að bíða lengi eftir heilbrigðisþjónustu og getur slík bið jafnvel verið lífshættuleg. Samt sem áður er biðtími eftir þjónustu átröskunarteymis Landspítala langur en hann var 18-20 mánuðir í fyrra. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir um að ræða „akút mál sem verði að leysa“.

Framkvæmdastjórinn, Grímur Atlason, segir að vandinn sé víðtækur og snerti í raun geðþjónustuna í heild. Um 30% þeirra sem leita til heilbrigðiskerfisins gera það vegna geðræns vanda en af fjármagninu sem rennur til heilbrigðiskerfisins fara einungis 11% í að takast á við málaflokkinn, að sögn Gríms. Hann segir að geðdeildir höfuðborgarsvæðisins og á Akureyri séu í „vægast sagt óboðlegu húsnæði“.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðherra kallar eftir áætlun

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að staðan sé óviðunandi og að hún ætli að kalla eftir því að Landspítali lagi stöðuna. 

„Mér finnst óásættanlegt að veita ekki fólki sem býr við svona alvarlegan geðsjúkdóm þjónustu með fullnægjandi hætti. Mér finnst að ég þurfi að fá skýrari áætlanir frá spítalanum um að þetta muni verða lagfært,“ segir Svandís.

Vilja að farið sé ofar í ána

Grímur bendir á að í nýjum meðferðarkjarna og við uppbygginguna á Landspítala sé ekki litið til geðdeilda.

„Það segir manni að þetta er ekki í nægilega miklum forgangi,“ segir Grímur. Geðhjálp vill sjá meiri áherslu á forvarnir er nú er gert.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, myndaður í tilefni átaks Geðhjálpar sem …
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, myndaður í tilefni átaks Geðhjálpar sem ber heitið G-vítamín. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við viljum skoða það að fara aðeins ofar í ána því átröskun er einkenni en orsakirnar liggja oftar en ekki annars staðar. Þú þróar með þér vanda vegna einhvers sem er að gerast t.d. í frumbernsku, í leikskóla, í menntaskóla,“ segir Grímur og bætir við:

„Það verður að vera alvöruátröskunarteymi í gangi, það verður að vera miklu öflugra, það þarf að fjölga fagfólki, það þarf að vera mannsæmandi húsnæði og það þarf að veita fólki þjónustu strax, ekki láta það bíða í eitt eða tvö ár eftir þjónustu, það er bara ekki boðlegt því þetta er lífshættulegur vandi.“

Geðþjónusta í hugmyndafræðilegum vanda

Grímur segir að víða sé pottur brotinn í geðþjónustu, þannig sé einsleit nálgun við meðferð, lítið fjármagn sett í geðdeildir, þær frekar bornar uppi af ófaglærðu starfsfólki en aðrar deildir Landspítala, lyfjalausar deildir vanti o.s.frv.

„Geðþjónustan er í ákveðnum vanda, hún er í húsnæðisvanda og hún er í hugmyndafræðilegum vanda,“ segir Grímur sem telur að skoða þurfi geðþjónustuna alla í heild sinni eins og Geðhjálp benti á með níu aðgerða forgangslista sínum fyrir skömmu (sjá 39.is).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert