Reyndust öll vera með Delta-afbrigðið

Landsréttur hefur birt einn úrskurð í máli fjölskyldu þar sem …
Landsréttur hefur birt einn úrskurð í máli fjölskyldu þar sem látið var reyna á það hvort jákvæð niðurstaða úr PCR-prófi væri nóg til að senda fólk í sóttkví eða einangrun. Hanna Andrésdóttir

Landsréttur hefur birt úrskurð í máli þar sem tekist var á um hvort hvort jákvæð niðurstaða úr PCR-prófi dugi til að senda fólk í sóttkví eða einangrun. Fjölskyldan sem fór með málið fyrir dóm bar fyrir sig að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar væri vægara en fyrri afbrigði. Hinir smituðu í fjölskyldunni reyndust hins vegar allir vera með Delta-afbrigðið.

Fjórir af fimm í fjölskyldunni smitaðir

Landsréttur vísaði málinu svo frá í síðustu viku þar sem sóknaraðili var þá laus úr sóttkví en í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. desember sl., sem birtur var með niðurstöðu Landsréttar, var ákvörðun sóttvarnalæknis um sóttkví og einangrun staðfest.

Snerist málið um fimm manna fjölskyldu sem taldi að niðurstaða úr PCR-prófi dygði ekki til að senda hana í einangrun eða sóttkví. Þar sem fjórir úr fjölskyldunni höfðu greinst með kórónuveiruna þurfti sá fimmti að fara í sóttkví.

Í úrskurði héraðsdóms er gerð athugasemd við að ekki hafi verið freistað að ná samstarfi um aðgerðir áður en ákvörðun um sóttkví var tekin eins og lög kveði á um og að það væri mjög miður.

Sér til varnar sagði sóttvarnalæknir að vegna mikils fjölda smita í samfélaginu hefði reynst ógerlegt að hafa samband við alla þá sem hefðu greinst smitaðir eða verið berskjaldaðir fyrir smiti.

Var það mat dómsins að þessi misbrestur dugði ekki til þess að fella ákvörðun sóttvarnalæknis úr gildi enda hafi hann rökstutt ákvörðun sína í skriflegu bréfi sem hann sendi fjölskyldunni á aðfangadag. Í bréfinu hafi hann útskýrt skilmerkilega hvað fælist í ákvörðuninni, hvað lægi að baki henni og á hvaða lagagrundvelli hún væri tekin.

Arnar Þór Jónsson lögmaður.
Arnar Þór Jónsson lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Betri greiningaraðferðir en PCR-próf óþekktar

Arnar Þór Jónsson, lögmaður fjölskyldunnar, sagði fjölskylduna þó ekki vera með Covid-19-sjúkdóminn þótt hún væri með veiruna enda með öllu einkennalaus. Þá vísaði hann einnig til kínverskrar rannsóknar frá nóvember 2020 sem hann sagði benda til þess að einkennalausir smituðu ekki aðra.

Héraðsdómur segir þessar málsástæður þó enga stoð fá í framlögðum gögnum og að sóttvarnalæknir hafi beinlínis andmælt þeim fyrir dómi.

Þá hélt fjölskyldan því einnig fram að PCR-próf væru óáreiðanleg. Í máli hennar var vísað til fjögurra dóma í Evrópu og eins dóms í Bandaríkjunum þar sem niðurstöður slíkra prófa voru dregnar í efa.

Í skýrslatöku sagðist Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ekki kannast við upplýsingar frá neinum ábyrgum aðila um að PCR-próf væru óáreiðanleg enda væri engin önnur betri aðferð þekkt til slíkrar greiningar. Slík próf væru notuð í öllum samstarfslöndum eftir forskrift frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC).

Þá upplýsti hann í skýrslatökunni að þeir fjórir úr fjölskyldunni sem smitaðir voru af veirunni hefðu greinst með Delta-afbrigði hennar, að því er greint er frá í dómnum.

Lágt CT-gildi benti til aukinnar smithættu

Taldi héraðsdómur það skipta máli og sagði að fjölskyldan hafi sjálf talað um það í vörn sinni að Ómíkron-afbrigði veirunnar væri ekki jafn hættulegt og Delta-afbrigðið.

Þá hafði sóttvarnalæknir sömuleiðis bent á að ólíkt fyrri afbrigðum væru börn líklegri til að smita út frá sér, að minnsta kosti til jafns við fullorðna, og að allir hinna smituðu hefðu mælst með lágt CT-gildi, sem benti til mikils magns af veirunni. Þannig væri meiri hætta á smiti frá þeim en ef CT-gildi hefðu verið hærri.

Að endingu komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að sóttvarnalæknir hefði ekki gengið lengra með ákvörðun sinni en nauðsynlegt hefði verið í þágu þess markmiðs að hefta frekari útbreiðslu faraldursins og þannig standa vörð um lýðheilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka